Þorleifur Ólafsson þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í körfuknattleik var svekktur með tap gegn deildar-, íslands- og bikarmeisturum Keflavíkur í kvöld.
Grindavík leiddi mest allan leikinn í jöfnum spennuleik og virtist vera með pálmann í höndunum en þá kom eitt af þessum frægu áhlaupum frá Keflavíkurkonum sem unnu leikinn 88:82.
Dramatískur sigur í fyrsta leik nýju þjálfaranna
Grindavík var með unninn leik en svo gerast ótrúlegir hlutir og Grindavík tapar hér með 6 stiga mun. Hvað gerðist?
„Keflavík hittir úr mjög stórum skotum á sama tíma og við missum fókusinn varnarlega hér í lokin. Leikmenn mega ekki fá að skjóta fá að skjóta og á sama tíma erum við ragar sóknarlega og þess vegna töpum við þessu.
En ég er mjög ánægður með liðið mitt. Við erum með tvo nýja leikmenn sem eru enn að læra á kerfin okkar en þetta er eitthvað sem við getum byggt á,“ sagði Þorleifur í samtali við mbl.is.
Grindavík leiðir mest allan leikinn. Þetta hlýtur að vera mikið batamerki fyrir Grindavík að ná svona leik gegn liði sem vann alla titlana á síðasta tímabili ekki satt?
„Jú, klárlega. Bæði lið hafa verið að ströggla með meiðsli. Við erum núna loksins með fullmannað lið og þetta lítur vel út. Það er jákvætt að geta horft upp á við og ég hlakka til að mæta á næstu æfingu. Heilt yfir er ég drullufúll að hafa tapað en sáttur með leik liðsins og áhorfendur hér í kvöld,“ sagði hann.
Næsti leikur er bikarleikur á móti Stjörnunni. Er eitthvað sem þú getur tekið með þér út úr þessum leik inn í bikarleikinn?
„Já klárlega. Eins og hjá öllum liðum ætlum við okkur áfram í bikarnum og búum okkur vel undir leikinn og mætum tilbúnar,“ sagði Þorleifur að lokum í samtali við mbl.is.