„Þetta er merkur atburður, þessi skjálftavirkni núna er meiri en við höfum séð svona í daglegum rekstri Bárðarbungu,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið um öfluga skjálftahrinu sem hófst í Bárðarbungu í gærmorgun og kveður svo rammt að, að annað eins hefur ekki mælst síðan í aðdraganda Holuhraunsgossins árið 2014.
Segir Páll enda að hér megi jafna til tveggja atburða, undanfara Gjálpargossins árið 1996 og áðurnefnds Holuhraunsgoss fyrir rúmum áratug.
„Búast má við að gos geti orðið í eldstöðinni út frá þessu eða kvikustreymi frá henni,“ heldur prófessorinn áfram og bætir því við að stefna atburða sé ekki fullljós en muni að líkindum skýrast er fram líður.
„Þetta er okkar öflugasta eldstöð og hún á sér margar hliðar og erfitt að segja til um hvað verður hverju sinni. Þessar tvær hliðar sem við þekkjum frá 1996 og 2014 eru mjög ólíkar hvor annarri,“ segir Páll og kveður margt geta komið til greina í hugsanlegu gosi nú, hegðun framangreindra gosa hafi verið óvænt miðað við það sem jarðvísindamenn töldu sig vita um eldstöðina öflugu.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/01/14/oflug_skjalftahrina_i_bardarbungu/
Kvikuhlaup til suðvesturs illt
Í eldfjallavefsjánni, sem Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra halda úti, kom í gær fram að mikið gjóskufall gæti orðið innan þrjátíu kílómetra frá Bárðarbungu verði þar sprengigos sem ryður sér leið upp í gegnum jökulinn. Gæti þykkt gjóskufallsins þá orðið allt frá tuttugu sentimetrum upp í rúma tíu metra. Engin byggð yrði í hættu, en samgöngur gætu gengið úr skorðum og jafnvel stöðvast alveg komi til goss.
Páll nefnir mögulegar rásir atburða í Bárðarbungugosi. „Ein er sú að það gjósi hreinlega upp úr öskjunni sjálfri og undir jöklinum og verði þá öskufall og einhver jökulhlaup sem fylgja því. Önnur er að það verði kvikuhlaup og gangainnskot til norðausturs, upp á Dyngjuháls, og verði hraungos þar, um það eru mörg merki,“ útskýrir Páll.
Alvarlegast segir hann þó komi til þess að kvikuhlaup verði til suðvesturs. „Þá gæti orðið hraungos á eystra gosbeltinu suðvestan við Vatnajökul, eins og í Veiðivötnum og Vatnaöldum á fyrri tíð. Þá erum við komin inn á virkjunarsvæði með öllu sem því fylgir, en það er engin leið að segja til um það á þessu stigi hvað verður ofan á, nú verður bara að fylgjast með.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/01/14/myrkur_gaeti_varad_klukkustundum_saman_ef_gys/
Nánar í Morgunblaðinu í dag.