mið. 15. jan. 2025 09:45
Snorri Steinn Guðjónsson.
Það er þetta drápseðli sem ég hef kallað eftir

Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson er fullur tilhlökkunar en hann er á leið á sitt annað stórmót sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik. Þetta er í 23. sinn sem Ísland tekur þátt á heimsmeistaramótinu í handbolta og sjöunda skiptið í röð sem Ísland er á meðal þátttökuþjóða en liðinu mistókst að tryggja sér sæti á mótinu árið 2009 sem fram fór í Króatíu.

Ísland leikur í G-riðli keppninnar ásamt Slóveníu, Kúbu og Grænhöfðaeyjum í Zagreb í Króatíu en mótið fer einnig fram í Danmörku og Noregi. Efstu þrjú lið riðilsins tryggja sér sæti í milliriðli fjögur sem verður einnig leikinn í Zagreb. Takist Íslandi að komast áfram í milliriðla verða næstu mótherjar liðsins úr H-riðli þar sem Egyptaland, Króatía, Argentína og Barein leika.

Tvö efstu lið milliriðilsins komast svo áfram í 8-liða úrslitin sem verða leikin í Zagreb og Bærum í Noregi en takist Íslandi að komast áfram í 8-liða úrslitin mætir liðið mótherjum úr milliriðli tvö sem samanstendur af liðum úr C-riðli þar sem Frakkland, Austurríki, Katar og Kúveit leika, og D-riðli þar sem Ungverjaland, Holland, Norður-Makedónía og Gínea leika.

Allt á réttri leið

Íslenska liðið lék tvo vináttulandsleiki gegn Svíþjóð í aðdraganda heimsmeistaramótsins en fyrri leiknum lauk með jafntefli í Kristianstad, 31:31, og þeim síðari með tveggja marka sigri Svíþjóðar, 26:24 í Malmö. Hvað vantaði upp á í þessum tveimur leikjum?

„Þetta er á réttri leið, bæði varnar- og sóknarlega. Ég var ánægður með viðhorf strákanna þó við höfum ekki unnið leikina en ég sem þjálfari vil alltaf sjá meira frá mínu liði. Þegar þú færð tækifæri til þess að vinna Svía, á þeirra heimavelli, þá verður þú að nýta þér það. Góð lið eins og Svíþjóð gefa ekki mörg færi á sér og við þurfum að negla svona leiki.

Þetta er eitthvað sem við höfum unnið að síðan ég tók við. Gegn bestu liðum heims þá færðu ekki mörg tækifæri til þess að negla leikina. Þess vegna er svo mikilvægt að gera það þegar tækifærið gefst. Það er þetta drápseðli sem ég er búinn að vera kalla eftir hjá mínu liði. Ég vil sjá okkur gefa í hvað þetta varðar og þegar við fáum tækifæri til þess að leggja þessar stórþjóðir að velli þá verðum við að gjöra svo vel að nýta okkur það.“

Ítarlegt viðtal við Snorra Stein má sjá í HM-blaði Morgunblaðsins sem kom út í gær en viðtalið má einnig sjá með því að smella hér.

til baka