þri. 14. jan. 2025 23:00
Hafsteinn Óli Ramos Rocha verður í eldlínunni með Grænhöfðaeyjum á HM.
„Þetta snýst um að vanda sig og halda kjafti“

Hafsteinn Óli Ramos Rocha verður í leikmannahópi Grænhöfðaeyja þegar liðið mætir Íslandi í fyrsta leik liðanna á heimsmeistaramótinu í Króatíu, Danmörku og Noregi sem hófst í dag.

Hafsteinn Óli, sem er 24 ára gamall, leikur með Gróttu hér á landi og er fæddur og uppalinn á Íslandi en móðir hans er íslensk á meðan faðir hans er frá Grænhöfðaeyjum.

https://www.mbl.is/sport/hm_handbolta/2025/01/14/hafsteinn_oli_maetir_islandi_i_fyrsta_leik_a_hm/

Þetta er hans fyrsta stórmót á handboltaferlinum en hann var kallaður inn í leikmannahóp Grænhöfðaeyja í gær vegna meiðsla. Áður var hann í 18 manna hópi fyrir mótið en átti að fara heim frá Zagreb á morgun.

Vonast til að fá mínútur

„Það verður sérstakt en helvíti gaman líka held ég,“ sagði Hafsteinn Óli í samtali við mbl.is þegar hann var spurður út í leikinn gegn Íslandi sem fram fer á fimmtudaginn kemur í Zagreb.

„Ég vonast auðvitað til þess að fá einhverjar mínútur í þessum leik og leikurinn sem slíkur leggst mjög vel í mig. Ég er búinn að fylgjast lengi með þessum strákum í sjónvarpinu og á stórmótum. Ég spilaði með einhverjum þeirra í yngri landsliðunum líka. Það verður virkilega gaman að mæta þeim á stærsta sviðinu,“ sagði Hafsteinn Óli.

Gæti fokið í liðsfélagana

En mun hann syngja með íslenska þjóðsöngnum?

„Nei ég þarf að passa mig á því að gera það einmitt ekki, þá gæti fokið í liðsfélaga mína. Þetta snýst um að vanda sig og halda kjafti,“ sagði Hafsteinn Óli og hló.

En með hvaða liði munu foreldrar hans halda í leiknum á fimmtudaginn?

„Mamma mun að sjálfsögðu halda með Íslandi, og Grænhöfðaeyjum líka reikna ég með. Þetta verður sérstakt fyrir hana enda er hún Íslendingur og hefur búið á Íslandi alla sína ævi. Ég er uppalinn hjá henni og þetta verður sérstök stund. Pabbi er grjótharður Grænhöfðaeyjamaður og hann mun að sjálfsögðu halda með sínu liði,“ bætti Hafsteinn Óli við í samtali við mbl.is.

til baka