Toyota hefur upplýst Persónuvernd og netöryggissveitina CERT-IS um tölvuárás sem gerð var á kerfi þeirra og Bílanausts í gær.
Að sögn Páls Þorsteinssonar, upplýsingafulltrúa Toyota, upplýsti fyrirtækið Persónuvernd um stöðu mála lögum samkvæmt, en hann segir enn unnið að því að skýra hvaða upplýsingar tölvuþrjótarnir hafi undir höndum.
„Við vonumst til þess að vita meira í dag og tökum stöðufund um hádegi,“ segir Páll.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/01/13/tolvuaras_a_toyota_stadfest/
Þakkar viðskiptavinum skilninginn
Gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana samkvæmt viðbragðsáætlun og tölvukerfin aftengd strax og árásin uppgötvaðist í gærmorgun.
Starfsmenn netöryggisfyrirtækisins Syndis og OK hafi unnið með tölvudeild Toyota við að rannsaka árásina, byggja tölvukerfin upp á ný og fyrirbyggja frekari skaða. Sú vinna gangi vel en sé ekki lokið.
Segir Páll starfsfólk Toyota hafa kappkostað að veita eins góða þjónustu og því hefur verið unnt og þakki viðskiptavinum skilninginn.