Heilsumarkþjálfinn Erla Guðmundsdóttir segir að síðustu ár hafi fækkað í hópi þeirra Íslendinga sem strengja sér áramótaheit. Þá benda erlendar rannsóknir einnig til þess að strengd áramótaheit víða um heim eigi sér ekki langa lífdaga, heldur renni þau gjarnan út í sandinn á fyrstu tveimur vikum nýs árs, sér í lagi annan föstudag á nýju ári. Má því draga þá ályktun að um liðna helgi hafi uppgjöf orðið raunin hjá flestum.
„Ég held að okkur hætti til að setja okkur óraunhæf markmið,“ segir Erla í Dagmálum um orsökina fyrir því að fólk gefist upp svo snemma á heitum sínum og telur mikilvægt að heitstrengingar í tengslum við heilsu séu gerðar í smáum skrefum.
„Það er svo mikilvægt að brjóta stóra markmiðið niður í mörg smærri markmið og njóta ferðalagsins.“
Markmiðasetning veldur sumum mótþróa
Að mati Erlu eru dagar áramótaheita ekki endilega taldir þrátt fyrir að margt bendi til úthaldsleysis. Lífsstílsbreytingu má gera hvaða tíma árs sem er.
„Svo erum við öll svo ótrúlega misjöfn. Sumum hentar ekki að setja markmið. Ég þekki fólk sem fer í mótþróa þegar það setur sér markmið og vinnur á móti því,“ segir hún og minnir á að aðalatriðið er að vita hvers vegna maður vill setja sér markmið, tileinka sér það og framfylgja því. Í stað þess að grípa það úr tómu að setja sér áramótaheit sem maður veit innst inni að verður að engu.
„Stóra spurningin er bara af hverju. Af hverju vil ég setja mér þetta markmið. Hver vil ég að útkoman sé og hver vil ég að ég verði orðin þegar ég er búin að ná þessu markmiði. Af því að ef maður setur sér eitthvað risamarkmið og svo nær maður því þá er hætt við því að maður upplifi tómleika. Það er bara búið.“
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að hlusta eða horfa á viðtalið við Erlu í heild sinni.