þri. 14. jan. 2025 08:48
Aðalmeðferð manndráps- og ránsmáls hefst fyrir Héraðsdómi Óslóar í dag.
Stunginn til bana og rændur

Tveir menn á þrítugsaldri sæta ákæru í manndrápsmáli sem í dag hefur göngu sína fyrir Héraðsdómi Óslóar í Noregi og snýst um víg þess þriðja, 24 ára, sem stunginn var til bana í bifreið við Fagerborg í Ósló í apríllok 2023, en lík hans svo flutt að Løkenåsen-grunnskólanum í Lørenskog, skammt norðan Óslóar, þar sem það fannst að morgni 28. apríl.

Annar hinna ákærðu er grunaður um að hafa stungið fórnarlambið fjórum sinnum í bifreið sem ákærðu höfðu til umráða, en hinn er borinn þeim sökum að hafa hindrað hinn stungna í að komast út úr bifreiðinni.

Millifærðu háar upphæðir

Áður en ákærðu gengu til verks neyddu þeir fórnarlamb sitt til að láta farsíma sinn af hendi auk lykilorðs að millifærsluforriti og millifærðu í kjölfarið 14.400 krónur, jafnvirði tæpra 178.000 íslenskra króna, yfir á reikning þriðja aðila, en síðar um kvöldið tæmdu ákærðu sparireikning hins myrta og höfðu þar 374.000 krónur upp úr krafsinu, jafnvirði 4,6 milljóna íslenskra króna.

Daginn eftir gerðu þeir svo tilraun til að ná 186.000 krónum, jafnvirði 2,3 milljóna íslenskra króna, út af reikningi hins látna, en höfðu ekki erindi sem erfiði vegna kerfisbilunar hjá bankanum.

Ákærðu játa ekki sekt sína um manndráp en halda því fram að um hafi verið að ræða rán sem fór úr böndunum. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð málsins ljúki 24. janúar.

NRK

NRK-II (líkfundurinn)

VG

til baka