mið. 15. jan. 2025 22:00
Á samband framtíð ef hann vill eignast barn en ekki hún

Theodor Francis Birgisson klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá 42 ára gamalli tveggja barna móður sem er með yngri manni sem þráir að eignast barn. Hvað er til ráða? 

Sæll Theodor. 

Ég er 42 ára gömul, tveggja barna móðir og er í sambandi með manni sem er þremur árum yngri en ég og er barnlaus. Hann langar mikið í barn og vill að við reynum að eignast barn saman. Ég veit ekki hvort ég sé tilbúin í slíkt, það er að segja að ganga í gegnum allan þennan pakka á ný, börnin mín eru bæði á framhaldsskólaaldri, en ég skil að sjálfsögðu vel hans sjónarhorn.

Hvernig er best að nálgast þetta svo að báðir aðilar séu sáttir?

Er einhver framtíð í svona sambandi?

Kveðja, 

HG

 

 

 

Sæl og blessuð,

svona mál eru verulega snúin. Það er hvorki hægt að ætlast til að einhver vilji eignast barn sem vill það ekki, og breytir það engu hvort viðkomandi eigi börn fyrir eða vill að upplagi ekki eiga börn.

Það er heldur ekki hægt að ætlast til að einstaklingur sem vill eignast barn hætti að langa til þess. Það er hægt að semja um afar margt í parsamböndum en hvort bæta eigi við barni eða ekk fellur utan þess rama að hægt sé að mætast á miðri leið. Það eru því afar ólík sjónarmið sem hér er um að ræðir og þau eru bæði rétt.

Hér ræður því úrslitum hversu ákveðin hvor aðilinn fyrir sig er í afstöðu sinni. Það er hins vegar afar mikilvægt að fylgja eigin sannfæringu og láta ekki neinn, hvorki maka né nokkurn annan, draga sig inn í óafturkræfa atburðarrás sem fer beint gegn sannfæringu þinni. Það er því mikilvægt að þú skoðir mjög vel hvort þú sért tilbúin til að hefja aftur ferli barnaeignar með öllu sem því fylgir, og ef svarið er nei en maðurinn þinn sækir það stíft að vilja eignast barn þá eru miklr líkur á að þið lendið í vandræðum með sambandið ykkar. Þar sem þetta er stórt og mjög flókið viðfangsefni þá myndi ég undantekningalaust mæla með að fagaðili yrði fengin til að fara yfir þetta með ykkur. Ég vona að þetta hjálp.

 

Kær kveðja,

Theodor.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodor spurningu HÉR. 

til baka