lau. 22. feb. 2025 06:00
Ásgeir Helgi er sáttur með lífið og tilveruna.
„Sprengikrafturinn er ekki alveg sá sami og fyrir tuttugu árum“

Ásgeir Helgi Magnússon er maður margra hatta. Hann er dansari, einn reynslumesti dansari Íslenska dansflokksins, flugþjónn hjá Icelandair og skemmtikraftur af guðs náð, en hann er mörgum kunnur sem dragdrottningin Agatha P. Auk þess er hann sambýlismaður og þriggja barna faðir, það er því alla jafna í nægu að snúast hjá honum. 

Líf Ásgeirs Helga tók jákvæðum breytinum fyrir nokkrum árum þegar Garðar Þór Jónsson kom óvænt inn í líf hans eitt örlagaríkt kvöld á Kaffibarnum. Þeir hafa brallað ýmislegt í gegnum tíðina og gerðust fósturforeldrar árið 2022 og eiga í dag þrjá unga syni. 

Á vegferð að byggja upp sjálfstraustið

Ásgeir Helgi uppgötvaði ástríðu sína fyrir dansi þegar hann var 17 ára gamall.

„Ég skráði mig á byrjendanámskeið í alls konar dansstílum í Jazzballettskóla Báru. Þarna opnaðist á eitthvað magnað og ég varð strax hugfanginn. Dansinn var svo stórkostlega frábær og heilandi fyrir unglinginn sem var á þeirri vegferð að byggja upp sjálfstraustið eftir að hafa gengið meðfram veggjum alla grunnskólagönguna.“

Dansinn er sumum í blóð borinn, á það við um þig og fjölskyldu þína?

„Nei, eiginlega ekki. Þetta er svolítið sjálfsprottið hjá mér. En ég ólst samt upp í mjög listrænu umhverfi. Mamma hefur alla tíð verið mjög áhugasöm um myndlist og ólst sjálf upp í návígi við mjög færa listmálara. Föðuramma mín var afskaplega fær lista- og handverkskona og gat unnið muni og verk úr öllum mögulegum efnivið.“

Vissirðu snemma að þú vildir verða atvinnudansari?

„Ég vissi fljótlega að þetta væri eitthvað sem mig langaði að gera en tilhugsunin um óstöðuga atvinnu, streð og verkefnaskort hræddi mig svolítið. Þegar ég fór í framhaldsnám í dansi var ég alltaf með það sem svona „fyrirvara“ að dansinn væri eitthvað sem mig langaði að læra en að ég væri ekki alveg viss um hvort ég myndi starfa við þetta. Svo fauk sá „fyrirvari“ bara út um gluggann þegar ég var um það bil að ljúka náminu.“

 

Ásgeir Helgi stundaði nám við Ballettakademian í Stokkhólmi og einnig við Listaháskóla Íslands. Hann gekk til liðs við Íslenska dansflokkinn árið 2010 og hefur tekið þátt í fjölda sýninga og fengið tækifæri til að ferðast um allan heim.

Nú hefur þú spilað stóra rullu hjá Íslenska dansflokknum í meira en áratug, hvernig kom það til?

„Danshöfundarnir Erna Ómarsdóttir og Damien Jalet voru á þessum tíma að skapa sviðsútgáfu af verkinu, Transaquania – Out of the Blue, sem hafði verið sett upp í Bláa lóninu árinu áður. Ég var búsettur í Hollandi en hafði kynnst þeim báðum í námi mínu í Listaháskólanum og rekist á þau á hinum ýmsu dansviðburðum í Evrópu. Þau óskuðu eftir því að ég tæki þátt í verkinu og ég kom heim til Íslands fyrir það verkefni. Svo leiddi eitt af öðru og ég ílengdist hjá Íslenska dansflokknum.“

Hvernig var að stíga á svið í fyrsta sinn sem atvinnudansari?

„Fyrsta verkefni mitt eftir útskrift var með dansflokki í Barselóna. Ég tók að mér hlutverk í verki sem var á sýningarferð um Spán og fyrsta sýningin mín var í afskaplega fallegu leikhúsi í katalónsku borginni Gíróna. Verkið hér Mur og var eftir danshöfundinn Thomas Noone. Ég man að ég var frekar afslappaður fyrir frumsýningunni minni, sjálfsagt vegna þess að fjórir af sex dönsurum höfðu dansað verkið áður og voru mjög öruggir og svo upplifði ég ekki mikla pressu því ég þekkti ekki neinn í áhorfendahópnum. Ég finn oftar en ekki fyrir aðeins meiri pressu ef ég er með fólkið mitt í salnum.“

Hver er stoltasta stund þín sem dansari?

„Það er svolítið skemmtileg tilviljun að nokkrum árum seinna var ég aftur kominn til Gíróna og í sama leikhús. Í þetta skiptið var ég kominn aðeins lengra á mínum ferli og var að dansa í uppfærslu belgíska dansflokksins Peeping Tom á verkinu A Louer. Ég hafði lengi fylgst með þessum dansflokki og það má segja að það hafi verið ákveðinn draumur að fá einhvern tímann tækifæri á að starfa með þeim. Þarna í leikhúsinu í Gíróna innrammaðist þetta einhvern veginn svo fallega. Ég var kominn aftur á sviðið þar sem ég byrjaði atvinnumennskuna, nokkrum árum betri og meðal frábærra listamanna sem ég hafði litið upp til lengi.”

 

Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar?

„Ég lenti í slæmum meiðslum á fæti snemma á öðru ári í náminu í Svíþjóð sem enduðu með því að ég fór í skurðaðgerð og var frá dansinum í tíu mánuði. Það var krefjandi að halda uppi jákvæðni og gleði á þessum tíma en ég fékk góðan stuðning. Sá lærdómur sem ég kannski helst dró af þessu var tvíþættur. Annars vegar að sýna líkamanum, verkfærinu mínu, þolinmæli og mildi og hins vegar var það aðlögunarhæfnin sem fylgir því að vinna sig í kringum meiðsli. Síðan þá hef ég verið nokkuð heppinn og ekki lent í alvarlegum meiðslum. Aðrar áskoranir hafa kannski helst verið þær að finna innri hvatningu og einhvern áhugaverðan flöt á efninu þegar maður tekur þátt í verkefnum sem höfða ekki mikið til manns. Jú, svo er skattaskýrsla verktaka alveg áskorun út af fyrir sig.“

Aðspurður hvort hann sé farinn að íhuga framtíðina með Íslenska dansflokknum segir Ásgeir Helgi að það sé farið að síga á seinni helminginn.

„Ég hef verið heppinn og náð að sigla svona nokkuð lignan sjó hvað varðar meiðsli og þess háttar en maður finnur að líkaminn breytist, ég er orðinn 42 ára gamall. Endurheimtin tekur aðeins lengri tíma og sprengikrafturinn er ekki alveg sá sami og fyrir tuttugu árum. En það er annað sem kemur í staðinn, eins og öryggið sem felst í reynslunni, sterkari nærvera á sviðinu og næmni. Það eru algjör forréttindi að standa enn á sviði og mig langar að halda því áfram eins lengi og ég get. En núna er ég í foreldraorlofi og er að njóta hverrar mínútu.“ 

„Það er yndislegt að sjá maka sinn í nýju hlutverki”

Ásgeir Helgi kom út úr skápnum á táningsaldri.

Manstu hvernig þér leið?

„Já, þetta var ótrúlegur rússíbani, bæði tilfinningalega og félagslega. Maður var einhvern veginn að uppgötva nýjan heim, þennan heim þar sem fleiri voru eins og ég. Heim og tilveru sem var í senn svo spennandi að maður vildi sökkva sér í hana til að vinna upp fyrir árin í skápnum en líka á tímum svolítið yfirþyrmandi.“

Hvernig voru viðbrögð fjölskyldu og vina?

„Mjög góð. Þau vissu alveg hvað klukkan sló, löngu áður en ég hikstaði því upp úr mér.“

Hvernig kynntist þú sambýlismanni þínum?

„Sameiginleg kunningjakona okkar kynnti okkur eitt kvöld á Kaffibarnum. Henni fannst við eiga vel saman og við sammæltumst um að hittast á stefnumóti. Það varð þó ekki fyrr en rúmu ári síðar. Kannski bara sem betur fer. Ég var tiltölulega nýkominn úr öðru sambandi og þurfti tíma til að gera það upp.“

 

Var þetta ást við fyrstu sýn?

„Nei, ég held ekki ást, en það var strax mikil hrifning. Mér fannst hann mjög myndarlegur og vissi að sjálfsögðu hver hann var, ég viðurkenni alveg að ég var búinn að kíkja oftar en einu sinni og tvisvar á Facebook-síðu hans.“

Hvernig hefur sambandið þróast?

„Sambandið okkar hefur þróast mikið með tímanum. Við smullum strax vel saman, erum svipað þenkjandi og deilum áhuga á útivist, ferðalögum, mat og drykk. Á þessum tíu árum höfum við ferðast mikið saman og lent í alls kyns ævintýrum sem hafa gert sambandið og vináttuna traustari og dýpri.

Við keyptum saman og gerðum upp gamalt hús úti á landi. Það var virkilega góð æfing í þolinmæði, samskiptum og málamiðlunum. Svo hefur sambandið líka breyst eftir að við stigum saman inn í foreldrahlutverkið. Það er yndislegt að sjá maka sinn í nýju hlutverki, Garðar er alveg frábær pabbi.”

 

Hvernig sérðu framtíðina?

„Framtíðin er alltaf svo spennandi. Ég er viss um að ég finn mér eitthvað skemmtilegt að bardúsa við. Svo hlakka ég til að fylgjast með strákunum okkar vaxa úr grasi og fóta sig í lífinu. Ég vona að við Garðar höldum áfram að vera hressir pabbar langt inn í ellina og kannski einn daginn gráir og glettnir afar.“

 

Ertu mikill fjölskyldumaður?

„Já, það er lífsins mesta gæfa að hafa fengið að verða pabbi. Við gerðumst fósturforeldrar árið 2022 og eigum í dag þrjá yndislega stráka og þeir eiga okkur. Einn þeirra býr hjá móður sinni og kemur til okkar eina helgi í mánuði og hinir tveir eru hjá okkur.”

„Hún byrjaði sem tilraun“

Ásgeir Helgi hefur heillað landsmenn í hlutverki Agöthu P. Hann skapaði karakterinn fyrir nokkrum árum þegar hann var að leita að leið til að tjá sig á skapandi hátt utan þessara hefðbundnu ramma sviðslistanna.

„Hún byrjaði sem tilraun en varð fljótt að persónu með eigin karakter og kraft.“

 

Hvernig lýsir þú henni?

Agatha P. er stór, björt og hugrökk. Hún er með sterka nærveru, húmor og óþrjótandi sjálfstraust – en hún hefur líka mjúka og kærleiksríka hlið. Hún er persóna sem vill gleðja fólk, hrista upp í daglegu lífi og vekja fólk til umhugsunar.

Hvað er skemmtilegast við dragið?

„Frelsið til að skapa. Það að geta breytt sjálfum sér í allt sem mann langar til að vera og skila því með gleði til áhorfenda er stórkostlegt. Samskiptin við fólkið eru líka ómetanleg – að sjá hvernig dragið snertir og gleður.”

til baka