Yfirvöld í Los Angeles-borg búa sig nú undir mikinn veðurofsa sem á eftir að gera slökkviliðsmönnum erfiðara fyrir að slökkva mannskæða gróðurelda sem geisa í og við borgina.
Veðurspár gera ráð fyrir hvössum vindi í Los Angeles næstu daga. Bandarísk yfirvöld vöruðu við því í gær að vindarnir gætu dreift gróðureldunum lengra inn í íbúðahverfi borgarinnar.
Búist er við að vindhraði nái hámarki á morgun, þriðjudag, en þá getur hann náð allt að 35 m/s. Veðurspár gera ráð fyrir því að vindhraðinn verði mestur á háfjöllum Ventura, sem eru í um 50 kílómetra akstursfjarlægð frá stærstu eldunum.
Eldarnir geisa á þremur svæðum í borginni.
Vara við hættulegum vindum í Los Angeles
Tekist að slökkva nær allan eldinn á Hurst-svæðinu
Í Palisades-hverfi loga umfangsmestu eldarnir og ná þeir yfir 23.173 hektara landsvæði. Slökkviliðsmenn hafa náð stjórn á 14% eldsins. Á Eaton-svæðinu er eldurinn næststærstur. Hann nær yfir 14.117 hektara og er búið að ná stjórn á um þriðjungi af svæðinu.
Talsvert betur gengur að hemja eldana sem geisa á Hurst-svæðinu en þar nær eldurinn yfir minnsta landsvæðið eða 799 hektara. Slökkviliðsmenn hafa nær alveg náð að slökkva eldana.
Í það minnsta 24 eru látnir og 16 er saknað eftir að gróðureldarnir brutust út fyrir tæpri viku síðan. Búist er við því að tala látinna muni hækka þegar leitar- og björgunarmenn skoða rústirnar á svæðinu með líkhundum.
Fjöldi húsa hefur brunnið til kaldra kola og tugir þúsunda hafa neyðst til þess að yfirgefa heimili sín vegna eldanna.