þri. 14. jan. 2025 07:30
Lággjaldaflugfélagið Ryanair er komið nóg af drykkju farþega.
Ryanair kallar eftir því að fólk drekki minna á flugvöllum

Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair vill að reglur um áfengisneyslu verði hertar. Þetta gerðist eftir að flugdólgur gerði allt vitlaust um borð í vélinni með þeim afleiðingum að snúa þurfti vélinni við. Flugfélagið vill láta takmarka drykkju farþega við tvo áfenga drykki á flugvöllum.

Ryanair hefur kallað eftir því að yfirvöld í löndum Evrópu, innan Evrópusambandsins, taki upp nýjar takmarkanir á áfengi til að koma í veg fyrir að farþegar verði of drukknir áður en gengið er um borð í flugvélar

Nú þegar áskilja flugfélög sér rétt til að neita farþegum sem þau telja of ölvaða að ganga um borð. Hins vegar vill Ryanair að fólk verði gert að sýna brottfararspjald þegar það kaupir sér áfengi á börum og krám á flugvöllum. 

 

Flugfélagið flýgur 3.600 flug á dag í 37 löndum. Starfsfólk Ryanair heldur því fram að vandamálið sé ekki áfengi sem neytt er um borð heldur áfengismagnið sem innbyrt er á flugvellinum.

„Við skiljum ekki hvers vegna drykkja farþega er ekki takmörkuð við tvo áfenga drykki þar sem það myndi leiða til öruggari og betri hegðunar farþega um borð í flugvélum og öruggari ferðaupplifunar fyrir farþega og áhafnir um alla Evrópu,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu í dag. 

Þá segir einnig að farþegar missi sig oft í áfengisdrykkju þegar flugi seinkar og að engin takmörk séu á því sem fólk lætur ofan í sig.

Kröfur Ryanair um takmörkun á neyslu áfengis má rekja til málshöfðunar á hendur óþekktum einstaklingi í þeirri viðleitni að sækja 15.000 evra kostnað til baka eftir að flugvél á vegum félagsins, frá Dublin til Lanzarote, var snúið til Porto í apríl síðastliðnum sökum dólgsláta einstaklingsins sem þá var farþegi í fluginu. Málið er rekið fyrir dómstólum á Írlandi.

The Guardian

 

til baka