Það að hugsa vel um fötin sín er ekki aðeins gott fyrir veskið heldur einnig umhverfisvænt. Á tímum sem þessum, þegar offramleiðsla á textíl er gríðarleg, þá hjálpar það að lengja líftíma fatnaðarins sem við eigum. Sérstaklega ef við eigum föt í fínum, ekta efnum þá geta þær flíkur enst í mörg ár ef hugsað er rétt um þau.
Þó að það hljómi auðvelt að handþvo fötin sín þá eru nokkur atriði sem verður að hafa í huga. Langflest sem má ekki fara í þvottavél má handþvo en svo eru einnig flíkur sem best er að fara með í þurrhreinsun.
En handþvottur er ekki meðfæddur hæfileiki heldur eru spurningar sem brenna á vörum. Hvaða hitastig á að vera á vatninu? Má handþvo ljósan og dökkan þvott saman? Hvernig á ég að hengja fötin upp þegar ég er búin að þvo þau?
Handþvottur eða þurrhreinsun?
Þurrhreinsun kostar bæði peninga en einnig er mikið af kemískum efnum notuð sem eru talin slæm fyrir náttúruna. Það eru þó sumt sem er betra að setja í hreinsun. Efni eins og viskós er flókið því um leið og það er þvegið í vatni þá getur það minnkað rosalega og ef það gerist þá er ekki hægt að fara til baka. Fóðraðir jakkar eða jakkar með axlapúðum er einnig öruggara að fara með í hreinsun.
Fáar flíkur í einu
Það er einfaldara að ráða við fáar flíkur í einum handþvotti. Oftast er notast við fötu, vask eða baðkar til að handþvo.
Notaðu blettaeyði á undan
Það eru meiri líkur á að þú náir blettinum úr ef þú bleytir blettinn örlítið og notar blettaeyði áður en þú handþværð flíkina alla. Það er mikið úrval af þeim í verslunum en svo kemstu ansi langt með sítrónusafa, ediki og sódavatni.
Passaðu upp á hitastigið
Efni eins og bómull, hör eða pólýester þola hita en mælt er með því að nota volgt vatn. Þessi efni þola meiri hita en til dæmis silki og ull sem má ekki þvo yfir 30°.
Bleyta, skola og endurtaka
Byrjaðu á því að blanda sápu við vatnið og bleyttu fötin í vatninu. Leyfðu fötunum að liggja í um þrjátíu mínútur í sápuvatninu. Varlega skaltu fjarlægja fötin í hreina skál eða vask og láttu nýtt vatn renna án sápunnar. Passaðu að snúa ekki mikið upp á fötin eða vinda þegar þú skolar þau því þá geturðu eyðilagt trefjarnar í efninu. Betra er að ýta þeim upp að brúnunum við baðkarið til dæmis til að losna við vatnið. Mundu að skola sápuna vel úr fötunum.
Á að hengja fötin upp til þerris?
Það er hægt að hengja skyrtur á herðatré til þerris en það verður að passa að það komi ekki auka „horn“ á axlir og ermar. Viðkvæmar prjónapeysur eins og úr kasmírull og annarri ull er best að leyfa að þorna á flötu yfirborði og er þá sniðugt að leggja þær yfir handklæði. Það er líklegt að flíkin missi formið ef þú hengir hana upp. Margar hversdagsflíkur má svo hengja á venjulega þvottasnúru.
Gufuvélin er besti vinurinn
Eftir handþvott er erfitt að komast fram hjá því að fötin verði krumpuð og þá kemur gufuvélin sterk inn. Hún hjálpar til að losna við krumpur eða fellingar í fötunum. Satínefni er sniðugt að gufa á röngunni svo það komi ekki blettir og á þetta sérstaklega við um satín í ljósum litum. Gufuvélin hjálpar líka til þegar það er mikið rafmagn í fatnaði sem kemur oft fyrir á frostmiklum dögum hér á landi.