Bergur Ebbi Benediktsson frumsýndi uppistandið Hagsmunir í Tjarnarbíói á föstudaginn. Hann mætti til leiks með aflitað hár, eyrnalokk og í plastbuxum með fiskiker í bakgrunni sem minna okkur á allt heimsins slor og verðmætasköpun í sinni tærustu mynd.
Þar fjallar Bergur Ebbi um samtímann og samskiptamynstur. Hvernig við hugsum, hvernig við tölum og hvernig við spáum í framtíðinni.
Gleði og glaumur ríkti í salnum en á meðal gesta var Árni Oddur Þórðarson viðskiptamaður og Kristrún Auður Viðarsdóttir fjárfestir, systkinin Kristín Pétursdóttir og Starkaður Pétursson, Andri Freyr Viðarsson útvarpsstjarna og Halla Helgadóttir í Hönnunarmiðstöð sem ákvað að stela stílnum af Ingu Sæland og klæddist í ökklabomsum við hnésíðan kjól. Spurning hvað íslenska tískusenan segir um það!