fös. 14. feb. 2025 08:30
Kolfinna Ýr Úlfarsdóttir upplifði mikil ævintýri þegar hún ákvað að ferðast ein.
Kolfinna fór ein til Afríku og sér ekki eftir því

Kennaraneminn Kolfinna Ýr Úlfarsdóttir fylgdi hjartanu árið 2023 og fór erlendis til að vinna sem sjálfboðaliði. Starfið fólst í kennslu á unglingastigi en Kolfinna heillaðist svo mikið af því að árið 2024 gerði hún slíkt hið sama og fór í aðra ferð.

„Ég hef síðastliðin tvö ár farið í tvær einstakar ferðir, fyrst til Sambíu og svo til Tansaníu og Taílands. Ég veit ekki alveg af hverju en það hefur alltaf verið einhver þrá hjá mér að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi. Svo tók ég bara ákvörðun um að vera ekki að eyða tíma í að bíða eftir því að einhver kæmi með mér, þannig að ég fór bara ein. Það er klárlega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið því þessi ferðalög hafa kennt mér svo margt. Ég er mjög ánægð með að hafa bara kýlt á þetta, en ég hafði aldrei áður farið einsömul erlendis og líka aldrei farið áður til Afríku. Í báðum ferðum hef kynnst ótrúlega mikið af góðu fólki sem ég er ennþá í daglegum samskiptum við.“

Hvernig var fyrri ferðin?

„Páskana árið 2023 fór ég í mánuð til Sambíu til að starfa með samtökum sem heita African Impact. Í upphafi var þetta lítil fjölskyldurekin stofnun en nú er þetta orðið að stærstu sjálfboðaliða samtökum í Afríku. Þau standa fyrir því að fólk komi og starfi sem sjálfboðaliðar en nái á sama tíma að ferðast, virkilega upplifa landið og tengjast heimamönnum. Aðalstefnan er að sjálfboðaliðarnir hafi jákvæð áhrif á umhverfið.

Um leið og ég mætti fann ég að þetta var staður sem ég vildi helst aldrei yfirgefa. Ég sá fljótlega hvernig African Impact samtökin hafa raunveruleg áhrif á samfélagið. Ég tók þátt í verkefni sem heitir Girl Impact, sem hefur það markmið að styrkja ungar stelpur til að þróa sjálfstraust sitt. Það er gaman að segja frá því að verkefnið hlaut verðlaunin Global Youth Travel Awards árið 2024 fyrir framúrskarandi framlag sitt til heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna.“

 

„Í starfinu mínu fór ég í fjóra skóla í grennd við borgina Livingstone. Ég kenndi stelpum á aldrinum 12-16 ára en það er því miður mikið brottfall úr skóla hjá stelpum á þeim aldri. Við vildum reyna að sporna við því og hvetja til jákvæðra breytinga innan þeirra samfélags. Ég var líka með strákahópa þar sem kennslan byggðist helst á því að fræða og hvetja strákana til þess að stuðla að jafnrétti.“

 

Adrenalín við Viktoríufossa

Kolfinna segist ekki bara verið að kenna í Sambíu heldur hafi hún fengið nægan tíma til að leika sér. 

„Fyrsta helgin mín var páskahelgin og þá fékk ég nokkurra daga frí. Ég fór þá í zip-line og teygjustökk hjá Viktoríufossum. Fossarnir eru á landamærum Sambíu og Simbabve og var zip-line ferðin einmitt yfir til Simbabve. Teygjustökkið var 111 metra fall af Viktoríuhæðinni yfir á, en í ánni býr slatti af krókódílum og flóðhestum svo mig skorti ekki adrenalínið þann daginn! Ég fór svo yfir helgina til Botsvana í Chobe þjóðgarðinn í safaríferð. Ég gisti þar í tjaldi og sá fullt af fílum, gíröffum, ljónum og fleiri dýrum sem var algjör draumur. Eftir það sá ég reglulega fíla og sebrahesta hér og þar þegar ég var á leiðinni í skólana á morgnanna. Það er hægt að líkja því við kindur og hesta útum allt á Íslandi. Fílarnir stoppuðu stundum umferð, því þeir tóku sinn tíma að fara yfir götuna.“

 

Synti í fossum

Í frítímanum var hún duglega að skoða sig um.

„Ég fór oft á sama markaðinn. Þar kynntist ég yndislegri saumakonu sem saumaði á mig tvær buxur, nokkra boli, hárband og tösku og þykir mér mjög vænt um þessa hluti. Síðustu helgina mína fór ég að synda í Viktoríufossum, eins og maður gerir á venjulegum laugardegi. Það var ótrúleg upplifun en ég fór alveg að brúninni og horfði yfir fossinn, fararstjórinn sem var með í för hélt bara í fæturna mína.“

 

Hvernig var seinni ferðin?

„Sumarið 2024 fór ég svo aftur út með African Impact og í þetta sinn fór ég til eyjunnar Sansibar í Tansaníu í þrjár vikur. Ég var í þorpinu Jambiani þar sem fátækt og skortur á hæfum kennurum hefur leitt til þess að nemendur nái ekki grunnkröfum um menntun á háskólastigi. Í Jambiani eru samtökin með fría enskukennslu fyrir fólk á öllum aldri, nemendur mínir voru á bilinu 16-35 ára. Ég kenndi þar málfræðireglur, setningagerð, orðaforða en það sem mér fannst skemmtilegast að kenna var tjáning. Þá fór ég með þeim í rökræðukeppnir, allskonar leiki og spuna. Á morgnanna hjólaði ég í barnaskóla þar sem ég kenndi 5-6 ára börnum, þá var ég með íþróttatíma, enskukennslu og ýmislegt annað eins og umferðarreglur. Krakkarnir kölluðu mig „Teacher Koffi“,“ segir hún. 

 

Heilluð af Sansibar

Á föstudögum var engin kennsla og fékk Kolfinna að kynnast félagslífi landsmanna. 

„Þá skipulögðum við vikuna á eftir og tókum svo þátt í samfélagsverkefni, m.a. við það að tína rusl á nærliggjandi ströndum. Í þessari ferð var ég svo heppin að lenda í herbergi með þremur stelpum sem urðu góðar vinkonur mínar. Ég varði frítíma mínum með þeim og við fórum reglulega til Paje sem er næsta þorp við Jambani og fórum þar á eins konar mathöll sem er á strönd. Þau kvöld enduðu yfirleitt með stoppi á strandarklúbb, það er einstakt að fara út að skemmta sér á Sansibar því allir kunna ákveðinn dans við hvert og eitt lag. Það var smá eins og heimamenn hefðu tekið dansæfingu bara fyrir kvöldið en þeir leyfðu okkur að taka þátt og voru ekki lengi að byrja að kenna okkur réttu sporin. Við stelpurnar dýrkuðum líka að fara á daginn að skoða strendur en þær eru hverri annarri fallegri. Þar verð ég að nefna bæði Michamvi ströndina og ströndina í Paje, báðar guðdómlegar.“

 

Eftir dvölina á Sansibar flaug Kolfinna til Taílands og kenndi þar ensku í þrjár vikur í borginni Hua Hin.

„Þar flakkaði ég meira á milli skóla svo að ég kynntist nemendunum ekki eins vel. Í Taílandi er notast við annað letur en við þekkjum úr íslensku og ensku, sem gerði það að verkum að kennslan reyndist mér meira krefjandi. Það var samt sem áður mjög góð upplifun og ég lærði að nýta látbragð og líkamsstöðu meira í kennslu. Eftir þessar þrjár vikur ferðaðist ég um landið með hópi af fólki á svipuðum aldri og ég. Ég fór á alvöru taílenskan Muay Thai bardaga og fékk að fara inn í hringinn og hengja blómaband á hálsinn á keppendunum. Það er hefð fyrir hvern bardaga að gera það og blómin eiga að tákna lukku. Ég fór seinna á fleiri bardaga og var með lagið sem þau spila í byrjun á heilanum í marga daga.“

 

Kolfinna fékk líka að fara með hópnum í Khao Sok þjóðgarðinn.

„Við gistum þá á hóteli sem er fljótandi á stöðuvatninu þar, það var einstök upplifun. Þar var farið í kajak ferð sem átti að vera frekar stutt og þægileg en endaði á því að verða um fjórar klukkustundir. Við heyrðum hljóð inni í trjánum beint fyrir framan okkur og við vorum fullviss um að þarna væri fíll á ferðinni. Okkur langaði að reyna að sjá hann svo að við biðum og biðum, sem var reyndar ekki svo slæmt því það var sól og huggulegt, en hann heilsaði upp á okkur á endanum og það var algjört gæsahúðar augnablik. Planið mitt eftir Taíland var að fara heim en ég ákvað að fara aftur til Sansibar og verja viku í viðbót í þeirri paradís. Ég var mest í borginni Stone Town með vinum mínum sem ég hafði kynnst úti og fór svo aðeins til Jambiani að heilsa upp á fólkið þar.“

 

Hvað er skemmtilegast við að ferðast?

„Það er að sjá og gera eitthvað nýtt og spennandi á hverjum degi. Mér finnst líka ótrúlega valdeflandi að ferðast ein og finnst ég vera orðin mun sjálfsöruggari fyrir vikið, svo hef ég kynnst yndislegu fólki og vinum til lífstíðar. Mér finnst alltaf gaman að ögra sjálfri mér smá og stíga út fyrir þægindarammann.“

 

Mælir með að kynnast menningunni í Afríku

Ert þú með ferðaráð fyrir þá sem ætla að ferðast til Afríku?

„Fyrsta ráðið mitt væri að ekki ferðast til Afríku og gista bara á lúxus hóteli og hanga þar. Það er svo margt að sjá og mikla menningu hægt að upplifa utan veggja hótela. Ég myndi líka ráðleggja að reyna að versla við heimamenn, það er alveg hægt að kaupa t.d. ávexti í matvörubúð en líka á mörkuðum og með því er verið að styðja meira við fólkið.

Sérstakt ráð fyrir Sansibar er að hafa alltaf á sér bæði reiðufé og hleðslubanka. Þar kemur fyrir að það verði rafmangslaust og eftir rafmagnsleysið virka stundum posar ekki í dágóðan tíma. Google Maps virkar ekki á eyjunni, ég lenti mest í því í Stone Town en fólk var mjög vingjarnlegt og tilbúið að aðstoða mig við að komast leiðar minnar.

Mig langar líka að minnast á í lokin að bæði í Sambíu og Sansibar var ég vöruð við svokölluðum afrískum tíma sem þýðir að allt gangi mjög hægt fyrir sig. Ég upplifði þetta þó nokkrum sinnum, það er enginn að flýta sér. Starfsfólk og nemendur mættu stundum 30-40 mínútum of seint í tíma en þetta er bara eitthvað sem ég þurfti að venjast á meðan ég var þar!“

til baka