Sigrún Erlingsdóttir er 32 ára gömul Hafnarfjarðarmær. Í byrjun árs árið 2022 tók hún stóra ákvörðun og fluttist til Kaupmannahafnar til að læra byggingar arkitektúr við Københavns Erhversakademi.
„Það hefur verið ævintýri útaf fyrir sig, ég sigldi bókstaflega út í óvissuna, ásamt Kormáki, litla unganum mínum sem var þá aðeins tveggja ára gamall. Námið er skemmtilegt og ég dýrka að búa í Köben, mér finnst hversdagsleikinn meira heillandi þar en á Íslandi til dæmis. Strákurinn minn elskar að búa þarna og er orðinn vel sleipur í dönskunni. Við hjólum útum allt saman, og já það er mikið hægt að gera saman. Elskum samt að koma í heimsókn til Íslands.“
Þessa daganna eru mæðginin þó ekki stödd í Kaupmannahöfn heldur hinu megin á hnettinum, þar sem Sigrún er í verknámi frá skólanum sínum.
Hefurðu ferðast mikið í gengum tíðina?
„Ég hef ferðast töluvert og elska að skoða heiminn. Árið 2018 fór ég í bakpokaferðalag með bestu vinkonu minni, þar sem við vörðum tveimur mánuðum í Suður- Ameríku og heimsóttum meðal annars Kólumbíu, Perú, Bólivíu, Brasilíu og Argentínu. Síðan lá leiðin til Asíu í aðra tvo mánuði, þar sem við fórum til Japans, Víetnam, Kambódíu, Taílands og Balí. Þetta var algjörlega ógleymanlegt ferðalag.“
Einnig starfaði ég sem flugfreyja hjá Wow air í þrjú ár sem gaf mér fullt af tækifærum til þess að ferðast á hina og þessa staði, meðal annars dvaldi ég í mánuð á Kúbu. Núna eftir að ég flutti til Kaupmannahafnar er ég dugleg að fara í styttri ferðir innan Evrópu og fór nýlega til Grikklands og Svíþjóðar.
Hvað finnst þér mest heillandi við ferðalög?
„Það sem mér finnst allra mest heillandi við ferðalög er að upplifa nýja menningu og víkka sjóndeildarhringinn. Það er ómetanlegt að kynnast fólki, bæði heimamönnum sem gefa manni einstaka innsýn í staðinn og öðrum ferðamönnum. Ég elska líka að prófa nýjan mat, skoða arkitektúr svo tek ég óteljandi ljósmyndir af öllu mögulegu til að fanga augnablikin og geyma minningarnar. En það sem gerir ferðalög líka svo einstök eru óvæntu ævintýrin og að uppgötva eitthvað sem maður bjóst ekkert endilega við. Það er þetta ófyrirsjáanlega sem heldur mér stöðugt heillaðri.“
Er einhver staður úr reisunni sem stendur upp úr?
„Öll ferðin var æðisleg en ég verð að segja að Suður-Ameríka hafi vinninginn úr reisunni. Þar upplifði ég hluti sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér. Ég hitti og talaði við bróður Pablo Escobar í Kólumbíu, gisti í hengirúmi í Amasónfrumskóginum og synti með bleikum höfrungum. Í Perú labbaði ég upp Machu Picchu fjallið og í Bólivíu hjólaði ég niður dauðaveginn og heimsótti saltflatirnar í Salar De Uyuni, en það var eins og að vera í annarri vídd. Í Brasilíu upplifði ég karníval hátíðina í Ríó og heimsótti eyju þar sem sjórinn lýstist upp þegar maður snerti hann, líkt og galdur! Þetta var bókstaflega eins og að lifa í ævintýri og ég mæli svo sannarlega með því fyrir alla sem hafa áhuga á að stíga út fyrir þægindarammann.“
Sigrún er enn óhrædd við að prófa nýja hluti en þessa daganna eru hún og sonur hennar á Balí þar sem hún stundar verknám. Hún segir tækifærið hafa eiginlega komið óvænt til sín.
„Skólinn minn gaf okkur lista yfir margar arkitektastofur sem bjóða upp á verknám, flestar af þeim eru þó staðsettar í Kaupmannahöfn. En á meðan ég fletti í gegnum skjalið, þá sá ég glitta í orðið Indónesía í horninu og það vakti strax áhuga minn. Ég sótti um án mikilla væntinga en hér er ég í dag og trúi því varla ennþá. Þegar samþykkið kom þurfti ég að sækja um sérstaka vísa áritun sem myndi duga mér í sex mánuði, en þar klikkaði ég aðeins, enda er ég með smá athyglisbrest. Það endaði þannig að ég á að fékk vísa við komu til landsins sem gilti aðeins í þrjátíu daga og mátti framlengja því einu sinni. Svo að við Kormákur höfum þurft að fara tvisvar úr landi og komið aftur til þess að fá nýja áritun. Það hefur reyndar bara verið skemmtilegt og skapað ný ævintýri en við fórum í tvær helgarferðir, fyrst til Singapúr og síðan til Malasíu. Við dveljum í Denpasar, þar sem arkitektastofan sem ég vinn á er staðsett og það er stutt í vinnuna. Balí er líka svo lítil eyja að það er ekkert mál að skjótast á hina og þessa staði. Mamma mín og bróðir minn komu með mér til að aðstoða mig með son minn á meðan ég vinn, sem hefur verið ómetanlegt. Dvölin hér hefur verið bæði krefjandi og stórkostlega skemmtileg, þetta hefur verið blanda af ævintýrum, vinnu og fjölskyldusamveru.“
Hvaða stað á Balí hefur þú fílað mest hingað til?
„Mér finnst Ubud vera ótrúlega skemmtilegur staður. Þar er maður umkringdur náttúruperlum, hægt að fá góðan mat og fara á flotta jóga staði. En í hreinskilni sagt þá fíla ég líka mjög mikið að vera búsett þar sem ég er, innan um heimafólkið. Gatan mín er alveg laus við ferðamenn og það er eitthvað svo fallegt við að upplifa daglegt líf hjá heimamönnum. Það er ákveðið jafnvægi í þessu, að fara bæði á rólega staði og svo aðra staði þar sem er fjör og meiri fjölbreytni. En það er ekki hægt að neita því að eyjan er að verða frekar þekkt fyrir það að vera yfirfull af ferðamönnum, svo þarf þarf aðeins að leita að rólegu hornunum.“
„Ég gæti gert langan lista yfir skemmtilega staði á Balí, því það er bókstaflega eitthvað fyrir alla hérna. Fyrir fjölskyldur er þetta draumastaður, strákurinn minn varð fimm ára í desember og hann er mjög ánægður hér og hefur átt svo mörg ógleymanleg ævintýri. Balí er klárlega staður til að koma saman sem vinir, par eða fjölskylda og njóta bæði skemmtunar og afslöppunar. Eitt af okkar uppáhalds kaffihúsum heitir Blend Café Ubud, þar er hægt að fá ofboðslega fallegar og litríkar smoothie skálar. Svo förum við oft á Yume sem er æðislegur japanskur veitingastaður.“
„Síðan eru tvær eftirminnilegar afþreyingar sem standa sérstaklega upp úr, þegar við fórum hver í sinn gúmmíhring og flutum niður á, með göngum sem Japanir höfðu byggt í seinni heimstyrjöldinni. Það heitir heitir Nukuwera og Pandawa og er í Ubud. Einnig þegar við fórum í drullu ævintýri sem heitir Mepantigan Bali og er staðsett rétt fyrir utan Denpasar. Okkur þótti það svakalega skemmtilegt og fengum við að leika okkur og veltast um í einu drullusvaði. Ef einhver er í Balí hugleiðingum, þá er viðkomandi meira en velkomið að senda á mig skilaboð á Instagram.“
Hvað er svo á döfinni hjá ykkur eftir Balídvölina?
„Eftir þessa sex mánuði þarf ég að einbeita mér að lokasprettinum í náminu mínu, þar sem ég mun útskrifast í júní 2025 með BA gráðu í Architectural Technology and Construction Management. Svo að fyrst á dagskrá er að setjast niður, skrifa lokaritgerðina og klára lokaverkefnið mitt, sem verður gert bæði í Danmörku og á Íslandi. Eftir það eru næstu ævintýri í bígerð! Ég er nú þegar byrjuð að plana ferð til Belfast, þar sem ég ætla að heimsækja Titanic safnið með syninum sem er mikill áhugamaður um skip og sögur þeirra. Síðan dreymir mig um smá Afríkureisu í framtíðinni, en ég er yfirleitt með einhver ný og spennandi plön að malla í huganum. Annars stefni ég á að finna vinnu tengda náminu mínu í Kaupmannahöfn. Ég er þó opin fyrir öllu og er tilbúin að fylgja spennandi tækifærum, hvert sem þau leiða mig.“