Magnús G. Jónsson varð fertugur á síðasta ári, starfar sem flugþjónn hjá Icelandair en er á leiðinni í mastersnám í landslagsarkitektúr, í Stuttgart, Þýskalandi. Hann byrjaði snemma að ferðast þegar hann heimsótti blóðföður sinn til Mexíkó.
„Ég elska að ferðast um heiminn eins og flestallir gera,“ segir hann og deilir með lesendum þremur draumaáfangastöðum sem hann á eftir að heimsækja.
Kackar-fjöllin í Tyrklandi
Magnús nefnir fyrst Kackar-fjöllin í Tyrklandi. Fjöllin og svæðið í kring voru skilgreind sem þjóðgarður 1994. Þau rísa yfir Svartahafinu í norðausturhluta landsins, í um tveggja klukkustunda fjarlægð frá Istanbúl, höfuðborg Tyrklands.
„Svæðið er þakið villtum blómum og af öllum svæðum í heiminum er þar að finna mestan líffræðilegan fjölbreytileika, bæði plantna og dýra,“ segir Magnús sem hefur einkar gaman af náttúrunni og margbreytni hennar.
„Ég spái mikið í náttúrunni en ég er líka mikill borgarstrákur og sérstaklega ef ég ferðast með manninum mínum [Sæmundi Má Sæmundssyni] þá höfum við gaman af að fara í borgarferðir.“
Við Kackar-fjöllin er mikið af evrópskum hungangsflugum, svipuðum þessum hérlendis, nema að um ræðir annan undirstofn. „Hunangið þar á víst að vera geggjað,“ segir Magnús. „Ég elska býflugur og skrifaði B.Sc.-ritgerðina mína um þær.“
Magnús lýsir Kackar-fjöllunum sem fullkomnum stað fyrir útivist með mikið af gönguleiðum og fari hann þangað muni hann eflaust prófa að hjóla um svæðið. Spurður segir hann að á svæðinu sé milt hitastig og að þar sé ýmist hægt að gista í tjaldi eða skála.
Koh Lao Lading-eyja á Taílandi
Næst nefnir Magnús Koh Lao Lading-eyju á Taílandi. Hann hefur kynnt sér eyjuna vel og segir hana algjöra paradís. „Ég hef einhvern veginn ekki getað fundið neitt neikvætt um staðinn.“
Þangað er hægt að fara í dagsferð á litlum bát frá þremur áfangastöðum á Taílandi, frá Krabi-bænum, Ao Nang eða Phang-nga.
Spurður segir hann helst fólkið, menninguna og matinn vera það sem heilli hann við Taíland, en vitaskuld sólin og sandurinn einnig. „Ég er samt frekar sjóhræddur og vel þess vegna sjaldan staði þar sem eru strendur. Á Koh Lao Lading væri gaman að upplifa náttúruna og umhverfið líka.“
Uluru-fjallið í Ástralíu
Þá kemur að þeim áfangastað sem líklegastur er til að verða að útskriftarferð þeirra hjóna, Magnúsar og Sæmundar. Ástralía er ein af tveimur heimsálfum sem Magnús á eftir að ferðast til, en Suðurskautslandið er hin álfan.
Það er þó ekki bara einhver staður í Ástralíu sem er ofarlega í huga Magnúsar.
Uluru-fjallið, rauðbrúnt og tignarlegt umkringt hrjóstrugu landslagi, heillar Magnús mikið. „Mig langar bara að standa og horfa á það [fjallið].“ Hann segist einnig vilja upplifa að vera á svæðinu að nóttu til því þetta sé talinn einn fallegasti staður í heimi til að horfa á stjörnurnar í kolsvörtu himinhvolfinu.
Magnús bætir því við að einnig sé hægt að sjá suðurljósin, eða Aurora Australis, sem eru svipuð norðurljósunum og að þarna sé lengsti vegur í heimi, alls 150 kílómetrar sem hægt er að keyra án þess að beygja.
Ekki nóg með það heldur eru ummerki um risaeðlur á svæðinu. „Ég er alveg smá nörd þegar kemur að dýrum og ég hef elskað risaeðlur frá því ég var lítill,“ útskýrir Magnús og bætir við að við Uluru-fjallið séu meiri en þúsund ummerki um risaeðlur, í formi steingervinga.
„Þarna eru fótspor heillar hjarðar sem hljóp yfir svæðið. Mér finnst það alveg magnað.“
Á meðan Magnús dvelur í Stuttgart verða þeir í fjarbúð þar sem Sæmundur stundar tannlæknanám hérlendis. Fjarbúðin verður til þess að þeir geta klárað námið á sama tíma og þá vonandi farið í ferð drauma sinna. Spurður segist hann myndi miða við að geta séð suðurljósin sem hljóti að vera að vetrarlagi í Ástralíu.
„Ef ég fengi tækifæri til að fara til Ástralíu þá myndi ég bara fara. Ástralía er það fyrsta sem við ætlum að gera þegar við útskrifumst.“
Hér má sjá myndir úr nokkrum ferðalaga Magnúsar: