Mamma, þú ert alltaf að gera að gera svo skemmtilega hluti í vinnunni,“ segir Helena Björk Jónasdóttir dóttur sína hafa haft á orði við sig þegar hún var að leita að skemmtilegu námi í háskólanum. „Og það er rétt, ég brenn fyrir því sem ég geri. Maður er alltaf að gefa af sér.“
Helena er þjálfari í Hress, líkamsræktarstöð í Hafnarfirði, eða hverfisstöðinni eins og hún kallar hana, og hefur verið það síðastliðin tíu ár. Samhliða hefur Helena einnig starfað við þjálfun eldri borgara á Hrafnistu í Hafnarfirði í fjölda ára en sagði nýlega upp starfi til að feta nýjar slóðir.
Afreksfólk í fjölskyldunni
Helena er 47 ára og gift margföldum Íslandsmeistara í knattspyrnu, Guðmundi Sævarssyni. Börn þeirra eru Embla, landsliðskona í fimleikum, Logi sem lærir nú að verða atvinnuballettdansari við San Francisco-ballettinn og Brynja dansari og knattspyrnukona. Það er því hægt að segja að fjölskyldulífið sé stútfullt af íþróttum og hreyfingu enda hreyfing eitthvað sem hefur fylgt Helenu frá æsku.
„Ég hef alltaf búið í Hafnarfirði og var í fimleikum í Björk frá því ég var krakki og þar til svona sautján, átján ára,“ segir Helena en um skeið var hún einnig þjálfari hjá Björk.
„Hreyfing er það eina sem ég kann.“
Eftir að hún lauk stúdentsprófi frá Flensborg fór hún til Portúgal sem „au-pair“ áður en hún hóf nám í Íþróttaskólanum á Laugarvatni. Þar segist hún hafa boðið konunum í sveitinni upp á eróbikktíma og þjálfað þær á gamla mátann tvisvar í viku.
„Þetta voru þessir típýsku eróbikktímar, þrjú hné upp og svoleiðis.“
Í náminu á Laugarvatni fór Helena einnig yfir á Sólheima í Grímsnesi og kenndi þar íbúum leikfimi tvisvar sinnum í viku. „Þetta var svolítið ævintýri.“
23 ár á Hrafnistu
Frá því Helena lauk B.Sc.-gráðu á Laugarvatni hefur hún starfað við að kenna íþróttir aldraðra á Hrafnistu og kenndi líkamsrækt annars staðar með. „Svo fór ég að eignast börn og þá kenndi ég með hléum.“
Ólétt að yngsta barninu hóf Helena í mastersnám í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands og kláraði það á þremur árum og lauk svo diplóma í öldrunarþjónustu.
„Ég elska að þjálfa fólk sem hefur hafið seinni hálfleikinn í lífinu. Það er bara svo skemmtilegt og gefur svo mikið af sér.“
Helena segist hafa tekið stórt skref síðasta vor þegar hún sagði upp starfinu á Hrafnistu og fór í sumarstarf sem flugfreyja hjá Icelandair. Það var erfitt fyrir hana að hætta starfinu sem hún hafði sinnt með hjartanu síðastliðin 23 ár.
„Það er eins og ég hafi verið á þeim stað í lífinu að vita ekki hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór,“ segir Helena og bætir við að það sé henni hollt að máta sig við önnur störf, vera lifandi og í flæði. Hún starfaði einnig tvö sumur í lögreglunni. Svo segja má að störfin sem hún velur í sér feli í sér hreyfingu.
„Ég hef alltaf verið í svona þremur vinnum, eins og svo margir. Svo er ég búin að vera síðastliðin þrjú ár á Endurhæfingarstöð hjarta- og lungnasjúklinga.“ Þar hefur Helena verið með hópa í klínískum mælingum og þjálfun. Fólk sem hefur verið að kljást við hjartavandamál.
Af starfinu á Hrafnistu tekur við nýtt og spennandi verkefni á vegum Takts á St. Jósefsspítala. Taktur er félag parkinsonsjúklinga á Íslandi og í því eru um 2.000 manns. Markmið verkefnisins er að grípa fólk sem greinist með parkinson nógu snemma svo hægt sé að hægja á framgöngu sjúkdómsins. Kærkomið starf, að sögn Helenu, sérstaklega sé litið til þess að nýgengi parkinson hérlendis er hlutfallslega hærra en fólksfjölgun segir til um.
„Ég brenn fyrir eldra fólki“
„Ég er alltaf að kenna í Hress, litlu stöðinni í Hafnarfirði, og hef gert síðastliðin tíu ár.“ Helena hefur þó æft þar mun lengur. „Þetta er bara hverfisstöðin okkar sem er búin að vera starfrækt lengi, alltaf á sömu kennitölu, sem mér finnst ótrúlega jákvætt.“ Og líkir Helena stöðinni við lítið samfélag sem sé ástæðan fyrir hve lengi hún hefur verið þar. „Fólkið er svo notalegt.“
Helena er einnig lærður jógakennari frá Icelandic poweryoga. Hún byrjaði með yin-jógatíma í Hress sem slógu í gegn. Í yin-jóga heldur iðkandinn stöðum og gerir mjúkar teygjur. Í dag er hún að læra pílates og kennir þá tíma í Hress. Ásamt því hefur hún verið með mjög vinsæla Hot hit- og Warm fit-tíma í heitum sal.
Þá ganga spennandi tímar í garð í Hress eftir áramót þegar stöðin byrjar með heilsueflingu fyrir 65 ára og eldri. Helena kemur til með að verða hluti af því prógrammi ásamt Lindu Björk Hilmarsdóttur, eiganda Hress.
„Ég brenn fyrir eldra fólki. Það er svo skemmtilegt og jákvætt og tekur sig ekki of alvarlega. Kannski svolítið eins og ég sjálf. Ég er bara venjuleg manneskja, eðlileg og blátt áfram og tek hvorki lífinu né sjálfri mér of alvarlega og ég held að fólk tengi við það.“
Minningarnar tengdar hreyfingu
Eins og gefur að skilja er Hreyfing ómissandi hluti af lífi Helenu þótt hún eigi sína hvíldardaga inn á milli. „Það þurfa allir kyrrð og ró og tíma til þess að gera ekki neitt. Ég tek hvíldardaga, borða að jafnaði hollt en á alveg mína óhollu daga þar sem ég fæ mér kannski kók og Hlölla og fer á sælgætisbarinn í Hagkaup. En það skiptir mestu máli að vera með þetta jafnvægi í lífinu og vera fyrirmynd, sérstaklega fyrir börnin.“
Hreyfing hefur ekki einungis líkamlegan ávinning fyrir Helenu heldur einnig andlegan, sem er einnig ástæða þess að hún getur ekki látið líða of marga daga á milli þess sem hún hreyfir sig.
Þá segir hún að hreyfing sé ekki mæld í svita. Það sé ekki málið að svitna mest. Góð hreyfing geti falið í sér göngutúr, teygjur og hvað eina sem fær fólk a.m.k til að standa upp úr sófanum.
„Frítímar okkar hjóna snúast mikið um fjallgöngur. Sumir fara í golf en við förum í fjallgöngur.“ Í gegnum tíðina hafa þau farið upp á fjöll með börnin og segir hún þau ekki týpurnar sem sitji á tjaldsvæðinu og drekki bjór.
Þannig hafi þau skapað góðar minningar fyrir börnin. Helena segist hafa séð, eftir því sem börnin eltust, að fjallgöngur fjölskyldunnar séu það sem sitji eftir í hugum þeirra.