lau. 18. jan. 2025 08:30
Hér stendur Hélène á Palccoyo-fjalli í Perú. Hún er klædd í „Hestapeysu“, eigin hönnun og uppskrift, sem sýnir fimm gangtegundir íslenska hestsins.
„Mig langaði alltaf til að skoða Machu Picchu“

Hélène Magnússon er fransk-íslenskur prjónahönnuður og rekur hönnunarfyrirtækið og ferðaskrifstofuna Prjónakerling ehf. Nýlega setti hún einnig á laggirnar hinsegin prjónaklúbb, ásamt Lindu Björgu Eiríksdóttur, í samstarfi við Samtökin '78. Frá maí til október ár hvert er annasamur tími hjá Hélène þegar hún fer í prjóna- og gönguferðir hérlendis með konum alls staðar að úr heiminum. Eftir að Hélène kláraði síðustu prjónaferðina í enda október síðastliðnum fór hún til Perú með yngstu dóttur sinni.

„Ég spurði bara hvert hún vildi helst fara af löndunum í Suður-Ameríku og niðurstaðan var Perú,“ segir Hélène en á aðeins tveimur dögum bókaði hún ferðina fyrir þær, pakkaði og græjaði.

Í nóvember byrjar rigningartímabil í Perú og þ.a.l hætta á skriðuföllum svo þær langaði að drífa sig í lok október.

 

 

Höfuðborgin Líma

„Frá Íslandi, flugum við til höfuðborgarinnar Líma þar sem við gistum í miðbænum í gömlu húsi frá Art Deco-tímanum, frá byrjun 20. aldar. Við vorum á hosteli en með eigið herbergi. Þetta var æðislegt, allt svo fallegt.“

Hitastigið var um tuttugu gráður á þeim tíma sem mæðgurnar dvöldu þar og mikill raki, það var þó kaldara á kvöldin.

Þær heimsóttu listasafnið í Lima, sem Hélène fannst magnað. Safnið er temmilega stórt samsafn listar frá nýlendutímanum til nútímans. Þar segir hún þær hafa fengið góða yfirsýn yfir tímaröð og þróun listar í Perú; allt frá tímum fyrir valdatíð Inka (precolumbian), til hernáms Spánverja og þaðan til nútímans.

https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2024/12/16/eina_bruin_sem_eftir_er_fra_heimsveldistima_inka_er/

„Við fengum líka leiðsögumann í nokkrar klukkustundir í Líma sem fór með okkur þar sem „lókallinn“ er,“ segir Hélène og bætir við að merkilegt hafi verið að sjá samansafn af ólíkum byggingum og mismunandi byggingarstíl. Þá hafi einnig verið mikill munur meðal fólks og stéttarskipting í þá veru sem vart þekkist hérlendis.

„Við heimsóttum klaustur þar sem geymdar eru bækur frá miðöldum.“ Hélène lýsir því hvernig bækurnar eru geymdar í hillum í opnu herbergi með opna glugga því rakinn sé það mikill og réttur fyrir geymslu bókanna að þær varðveitist vel við þessi skilyrði.

„Svo flugum við nánast strax til Cusco sem er gömul höfuðborg Inkanna.“ Borgin er í um 3.400 metra hæð og sú sjöunda fjölmennasta í Perú. Hún er staðsett í Sacred Valley í Andes-fjöllunum og segir Hélène borgina hafa verið fallega en svolítið yfirþyrmandi vegna sýnilegrar sögu bygginganna, en Spánverjar hernumu borgina 1533.

 

 

Inka-borgin Choquequirao

„Mig langaði alltaf til að skoða Machu Picchu,“ segir Hélène en þegar hún fór að kynna sér borgina fannst henni þetta of mikill ferðamannastaður fyrir sinn smekk, með um 3.000 gesti á dag, jafnvel í nóvember.

Machu Picchu, sem gjarnan er kölluð týnda Inkaborgin, er víggirt borg Inkanna frá 15. öld, staðsett í sunnanverðu Perú. Vegna ferðamannastraums þangað ákváðu þær mæðgur að gera eitthvað öðruvísi og fóru til Choquequirao, borg byggð af Inka-indíánum sem einnig er í suðurhluta Perú, með svipaðan arkitektúr og Machu Picchu.

Choquequirao er aðeins minni en Machu Picchu en dreifist yfir mun stærra svæði. Aðeins er hægt að ganga til borgarinnar sem er í rúmlega 3.000 metra hæð og gangan nokkuð erfið. En hægt er að taka lest til Macchu Picchu.

 

Ferðin til Choquequirao tók fimm daga. „Við vorum tvo daga á leiðinni upp að borginni, vörðum þar heilum degi, nánast einar, og vorum svo tvo daga á leiðinni til baka.“ Þær gistu í tjaldi á leiðinni en voru með leiðsögumann og þurftu því ekki að bera búnaðinn sjálfar. „Það var ótrúlega heitt á daginn en á kvöldin féll hitastigið mjög svo lopapeysa og föðurland var algjörlega málið.“

Leiðsögumaðurinn var sjálfur afkomandi Inka í gegnum móður sína og deildi með mæðgunum sögu þessarar fornu indíánamenningar.
„Þetta var æðislegt.“

 

Vefnaður og prjón

Til þess að aðlagast hæðinni, fóru þær fyrst í dalinn Sacred Valley. „Þar fórum við sérstaklega að hitta konur í Chinchero-þorpinu og skoðuðum vefnað og prjón,“ segir Hélène en þar liggur áhugi hennar, í vefnaði og að prjóna. „Í þorpinu er samfélag kvenna sem handprjónar, vefar og jurtalitar og munurinn á því sem er ekta og óekta verður svo greinilegur þegar maður hefur séð hvernig þær vinna þetta.“

Konurnar í þorpinu reyna að viðhalda gömlum hefðum og kenna yngri konum handbragðið.

Í Cusco ferðuðust þær einnig til Palccoyo-fjallsins, eða regnbogafjallsins, með sína ægifögru og marglitu tinda í um 5.000 metra hæð, sem staðsett er í Andes-fjallgarðinum. „Þangað fórum við bara sjálfar og vorum alveg einar á svæðinu.“

Hélène segir það hafa verið magnaða upplifun og sér í lagi vegna þess að það rigndi alls staðar nema á svæðinu sem þær voru á og aðeins tveimur dögum áður höfðu fjalltopparnir verið þaktir snjó.

 

 

Allir karlarnir prjóna

Frá Cusco fóru þær með rútu til Púno, borgar í suðausturhluta Perú, við strönd Titicaca-vatnsins. Úti á vatninu er Taquile-eyja og þar dvöldu þær hjá perúvskri fjölskyldu.

„Þar sem við böðuðum okkur í vatni, spjölluðum, prjónuðum saman og skoðuðum eyjuna. Frá unga aldri, svona fjögurra til fimm ára, læra allir karlmenn á eyjunni að prjóna. Þegar þeir verða aðeins eldri, eiga þeir að prjóna sér sérstaka húfu á mjög fínlegum prjónum en litirnir segja til hvort þeir eru á lausu, giftir eða í sambúð“, sem var einkar skemmtilegt að sögn Hélène.

Að dvelja inni á fjölskyldu segir hún vera eins konar vistvænan ferðamáta og einstaka upplifun. Enginn talaði ensku á eyjunni og fáir spænsku og gátu mæðgurnar klórað sig áfram í samskiptum með smá spænskukunnáttu, blandaðri íslensku, ensku, Queshua (Inka-máli) og táknmáli. „Ég gat alltaf talað spænsku þar til ég lærði íslensku en eftir að ég lærði hana þá blandast þetta saman í höfðinu og endar í spænsk-íslenskum orðum eins og „góðas noches“,“ segir hún og hlær.

 

Frá Púno ferðuðust mæðgurnar með „Hop Peru“-rútu til baka til Líma. „Við stoppuðum í Arequipa og kynntum okkur betur framleiðslu á fínustu alpaca- og vicuna-ullinni.“

Leiðin lá meðfram sjónum til Parracas. „Við sigldum til eyja sem eru eins konar „Peruvian galapagos“, renndum okkur á brettum í sandinum í Huacachina oasis og böðuðum okkur í sjónum.“

Hélène segir innfædda á þessu svæði hafa verið að vefa og bródera ótrúlegan textíl sem er meðal þess elsta og fínasta í heimi. „Þessa „pre-columbian“ textílmennigu er best að sjá í Líma og þá sérstaklega í textílsöfnum í Miraflores sem er ríkasta hverfi í höfuðborginni með háum nútímalegum turnum, frekar óhugnanlegt hverfi,“ segir hún.

Í lok ferðar gistu mæðgurnar í listamannahverfinu Barranco í Líma, hverfi sem er gjörólíkt miðborginni – staður þar sem Hélène á vel heima, í nálægð við listina.

 

 

til baka