lau. 23. nóv. 2024 11:45
Harry Kane hefur farið stórkostlega af stað á þessari leiktíð.
Kane sló met Haalands

Harry Kane varð fljótasti leikmaður í sögunni til að skora 50 mörk í efstu deild þýska fótboltans eftir að hann skoraði þrennu fyrir Bayern München í 3:0-sigri liðsins gegn Augsburg í gærkvöld.

Fyrstu tvö mörk leiksins komu bæði af vítapunktinum, það fyrra á 63. mínútu og það seinna á þriðju mínútu í uppbótartíma. Þriðja markið kom síðan á fimmtu mínútu uppbótartímans.

Kane, sem skoraði 50 mörk í 43 leikjum, sló þar með met Erlings Haalands en hann skoraði 50 mörk í 50 leikjum fyrir Borussia Dortmund áður en hann gekk í raðir Manchester City.

Kane hefur farið stórkostlega af stað með Bæjurum á þessari leiktíð en hann er með 14 mörk í 11 deildarleikjum. Bayern situr á toppi deildarinnar með 29 stig.

til baka