„Mér fannst við byrja leikinn vel þar sem við lékum af miklum krafti og fengum góð tækifæri,“ sagði Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, á fréttamannafundi eftir 95:71-tap fyrir Ítalíu í undankeppni EM 2025 í kvöld.
Eftir góða byrjun skoraði íslenska liðið ekki í langan tíma á meðan Ítalía gekk á lagið.
Fyrri hálfleikurinn felldi Ísland
„Svo fórum við að hiksta þegar við vorum komnir í 12 stig, á meðan þeir héldu sínu striki. Þeir refsuðu okkur með sóknarfráköstum og við áttum í erfiðleikum með að koma boltanum ofan í körfuna.
Þó við höfum byrjað þriðja leikhluta frábærlega og áttum frábæra endurkomu þá var það að vera 24 stigum undir í hálfleik of mikið,“ sagði Craig.
Þrátt fyrir stórt tap gat kanadíski landsliðsþjálfarinn fundið jákvæða punkta í leiknum og vonast til þess að litið geti nýtt sér þá fyrir næsta leik gegn Ítalíu ytra á mánudagskvöld.
„Ég tel okkur hafa gert mjög vel í að berjast og halda áfram. Við fundum út hvað virkaði fyrir okkur á vellinum og vonandi mun það hjálpa okkur á mánudag,“ sagði Craig einnig.