fös. 22. nóv. 2024 22:35
Sigtryggur Arnar Björnsson fremstur í flokki fyrir leik í kvöld.
Ekki hægt að vinna körfuboltaleik ef þú skorar ekki

Sigtryggur Arnar Björnsson var að vonum svekktur með stórt tap gegn Ítölum í undankeppni EM karla í körfubolta í kvöld.

Spurður að því hvort Ítalska liðið hafi verið númeri of stórt sagði Sigtryggur Arnar þetta:

„Já, þeir eru með frábært lið. Þeir eru með stóra menn og langir í öllum stöðum og gerðu mjög vel varnarlega. Við skorum 25 stig í fyrri hálfleik og það lagði grunninn að þeirra sigri.“

Má þá segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið banabiti Íslands?

„Já, það er bara ekki hægt að vinna körfuboltaleik ef þú skorar ekki. Það var bara þessi kafli þar sem við skorum varla stig í einhverjar 10 mínútur eða eitthvað. Seinni hálfleikurinn var samt frábær og ef við mætum þannig í næsta leik þá eru allir möguleikar opnir fyrir okkur,“ sagði hann.

Hvað er það sem vantaði upp á þegar stigaskorið stoppaði í ykkar leik?

„Þeir byrja að skora og þá náum við ekki að keyra í bakið á þeim með þessum stemningskörfum sem við þurfum. Þá deyr stemningin og það hægist á okkur sem gerir það að verkum að það verður mjög erfitt að skora gegn mjög vel skipulögðu liði eins og Ítalir eru,“ sagði Sigtryggur Arnar.

Síðan í seinni hálfleik kemur frábær leikkafli þar sem þið komið muninum niður í 9 stig. Hvað breytist þá?

„Það eru þessi stopp sem við náum. Þá keyrum við í bakið á þeim. Við erum litlir, snöggir og getum hitt vel. Við þurfum bara að ná upp tempói í næsta leik til að ná í betri úrslit en í kvöld,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

til baka