Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik tapaði naumlega fyrir því svissneska, 30:29, í fyrri vináttuleik liðanna í Möhlin í Sviss í kvöld.
Liðin mætast öðru sinni á sunnudag en þá í Schaffhausen. Bæði Sviss og Ísland undirbúa sig fyrir þátttöku á EM 2025 í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss en mótið hefst í lok mánaðarins.
Ísland byrjaði leikinn afleitlega og var sex mörkum undir, 10:4, þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður.
Þá tók Arnar Pétursson landsliðsþjálfari leikhlé. Eftir það batnaði leikur íslenska liðsins mikið og tókst því að jafna metin í 16:16 þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik.
Sviss skoraði hins vegar síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og staðan því 18:16 í hálfleik.
Jöfnuðu tvisvar en náðu ekki að snúa taflinu við
Jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik. Eftir að Sviss komst í 22:19 tókst Íslandi að jafna metin í 22:22.
Þá tók Sviss leikhlé og við það batnaði leikur heimakvenna á ný. Þær skoruðu þrjú mörk í röð, komust í 25:22 og þá þótti Arnari tímabært að taka leikhlé um miðjan síðari hálfleikinn.
Áfram voru sveiflur í leiknum og brást íslenska liðið vel við, skoraði þrjú mörk í röð og jafnaði metin einu sinni enn, að þessu sinni í 25:25.
Enn auðnaðist Íslandi hins vegar ekki að snúa taflinu við og einu sinni sem áður komu þrjú mörk í röð hjá Sviss, 28:25.
Íslenska liðið reyndi hvað það gat til þess að jafna metin það sem eftir lifði leiks og hélt raunar að það hefði gert það á lokasekúndunni en mark Theu Imani Sturludóttur reyndist koma einni sekúndu of seint. Niðurstaðan var því eins marks tap.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst hjá Íslandi með sex mörk og Elín Klara Þorkelsdóttir og Steinunn Björnsdóttir bættu við fimm mörkum hvor.
Mörk Íslands: Perla Ruth Albertsdóttir 6, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Steinunn Björnsdóttir 5, Thea Imani Sturludóttir 4, Andrea Jacobsen 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1.