Írski bardagakappinn Conor McGregor hefur verið dæmdur sekur og mun þurfa að borga skaðabætur í einkamáli þar sem hann var sakaður um nauðgun og líkamsárás.
Hin 35 ára Nikita Hand sakaði hann um nauðgun og fyrir að hafa gengið í skrokk á sér á hóteli í suðurhluta Dublin í desember 2018.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Kviðdómurinn, sem samanstóð af átta konum og fjórum körlum, hafði rætt málið síðan í gær og hefur nú McGregor verið skipað að greiða konunni um 248.000 evrur í skaðabætur, en það samsvarar um 36 milljónum íslenskra króna.
Hand hafði einnig kært annan mann, James Lawrence, fyrir nauðgun, en komst kviðdómurinn að þeirri niðurstöðu að Lawrence væri saklaus.
Fórnarlömbin hafi rödd
Hand ræddi við fjölmiðla fyrir utan dómstólinn í Dublin í dag þar sem hún sagðist snortin yfir þeim stuðningi sem hún hefur fengið frá fólki í gegnum réttarhöldin.
Kom hún þeim skilaboðum áleiðis til „allra fórnarlamba kynferðisofbeldis“ að saga hennar væri „áminning um að sama hversu hræddur þú gætir verið við að tjá þig, þá hefurðu rödd.“
McGregor og Lawrence höfðu báðir neitað sök í málinu og sagst hafa stundað kynlíf með Hand með samþykki hennar.