fös. 22. nóv. 2024 16:40
Fríða Rut Heimisdóttir rekur hárheildsöluna Regalo og er ósátt við að Krónan selji vörur sem eru ætlaðar fagfólki.
Fríða Rut ósátt með að Krónan flytji inn vörur ætlaðar fagaðilum

Fríða Rut Heimisdóttir, eigandi heildverslunarinnar Regalo og hárgreiðslumeistari, segir að fagfólk í hár- og snyrtivörugeira landsins sé ósátt við að Krónan sé farin að selja hárvörur sem eru ætlaðar fagaðilum.

„Íslenskir birgjar eru atvinnuskapandi og búnir að markaðssetja og setja sérvaldar og sérhannaðar hár- og snyrtivörur á markað sem snúa hagkerfishjólinu gangandi um land allt,“ segir Fríða Rut og bendir á að hárfagstéttin sé lögvernduð iðngrein. Fagfólk þurfi sérstök leyfi til reksturs fyrir ákveðin efni frá heilbrigðiseftirlitinu. Því sé þetta enn alvarlegra mál að vörur fyrir fagaðila séu seldar fram hjá þeim.

„Hvað þá að svona stórt fyrirtæki eins og Krónan, sem við öll höldum á einhvern hátt gangandi með lífeyrissjóðsgjöldum, skuli að mínu mati bregðast svona mörgum minni fyrirtækjum í landinu og það skuli bara vera allt í lagi gagnvart atvinnurekstri á landinu,“ segir hún.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/09/01/thetta_er_grafalvarlegt_mal/

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/09/07/ekki_haegt_ad_fullyrda_um_ooryggi/

„Slæmt að sjá eitt stærsta fyrirtæki landsins eyðileggja mörg smærri fyrirtæki“

Það fer fyrir brjóstið á henni að fyrirtæki sem er í eigu lífeyrissjóðanna hagi sér með þessum hætti.

„Krónan er í eigu Festi sem er stórt og stöðugt fyrirtæki og að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóðanna og okkur ber skylda að borga sjálf og fyrir starfsfólkið okkar í lífeyrissjóð. Það er slæmt að sjá eitt stærsta fyrirtæki landsins eyðileggja mörg smærri fyrirtæki sem eru að flytja inn vörur, markaðssetja, vera atvinnuskapandi og fleira. Við erum líka að tala um hagkerfið og hjól innan atvinnulífsins sem þarf að rúlla,“ segir Fríða Rut.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/09/12/vilja_veita_naudsynlegt_adhald/

Flytja inn vörur frá sænsku fjölskyldufyrirtæki

Fríða Rut segir að Krónan hafi flutt inn jólakassa frá hárvörumerkinu Maria Nila sem er lítið sænskt fjölskyldufyrirtæki í Stokkhólmi sem sérhannar vörur sínar sérstaklega fyrir fagfólk.

„Maria Nila hafði samband við okkur árið 2016 og upp hófst viðskiptasamband og vinátta á milli okkar,“ segir Fríða Rut.

„Við hjá Regalo ehf. erum umboðsaðilar fyrir nokkur þekkt hárvörumerki og þegar birgjarnir hafa leitað til okkar um samstarf þá hefur okkur ávallt verið boðið á fund erlendis í höfuðstöðvar þeirra, þar sem okkur er kynnt stefna fyrirtækisins, stundum sýndar verksmiðjurnar eins og í tilviki Maria Nila og við förum yfir leiðbeiningar þeirra um hvernig þeir hafa hannað merkið, hvaða markaðssetning er leiðandi í heiminum með notkun mynda og texta ásamt þýðingum á bækling, fræðslu og fleira, sem við höfum ávallt virt og fylgt strangt eftir,“ segir Fríða Rut.

„Mörg fyrirtæki, m.a. risinn L'Oréal, framleiða sérstaklega sérmerktar vörur sem aðeins eiga að vera seldar af fagfólki og á fagstofum. Þetta er gert vegna innihalds fagvara sem eru öðruvísi og sumar þeirra eru með merkingar á brúsanum Salon Exclusive sem þýðir „eingöngu til fagaðila“. Svo framleiða þessi fyrirtæki einnig aðrar vörur sem sérstaklega eru hannaðar til endursölu í búðum,“ segir Fríða Rut.

 

 

Hagkerfið tapar alltaf að lokum

„Það er leitt að sjá smærri fyrirtæki um land allt, þar sem sérhannaðar og sérmerktar fagvörur eru hannaðar og seldar á hárgreiðslustofunum, fara á svokölluðum gráa markaði inn á stórvörumarkaði eins og Krónuna, því það er hagkerfið sem tapar alltaf að lokum þar sem vörumerki eru eyðilögð, stofur tapa veltu og fólk missir vinnuna. Það er mjög sérstakt að svona stór og öflugur aðili eins og Krónan með Festi og lífeyrissjóðina á bak við sig þurfi að fara þessa leið þar sem þessar vörur skipta þá sáralitlu í stóra samhenginu.

Ég veit fullvel að hárgreiðslustofur eru ekki að selja matvöru og er fullviss að hárgreiðslustofur kaupa einnig í gegnum þá birgja í landinu sem hafa samninga við vörumerkin sín. Mér finnst að allir eigi að bera virðingu fyrir hvert öðru og virða vörumerkjahönnunina og ímynd,“ segir Fríða Rut.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/09/08/selja_ekki_snyrtivorur_af_graum_markadi/

til baka