sun. 22. des. 2024 06:00
„Við munum slaufa yfir okkur í ár“

Jólaborðið ár hvert er í uppáhaldi hjá sumum en hausverkur fyrir aðra. Júlíana Sól Sigurbjörnsdóttir heldur sig við stílhreina og hlýlega hluti sem hún hefur safnað í gegnum árin. Smáatriði eins og velúrslaufur setja hátíðlegan svip á borðið.

Fagurkerinn Júlíana Sól Sigurbjörnsdóttir er eigandi verslunarinnar Officina í Reykjavík. Hún viðurkennir að hún sé mikið jólabarn og eigi það móður sinni að þakka. Jólaborð Sólar þetta árið er guðdómlega fallegt, hlýlegt og stílhreint með velúrslaufum og silfurkertastjökum.

„Mamma gerði alltaf svo kósí um jólin þannig að snemma í nóvember á ég það til að byrja aðeins að vinna mig inn í jólatónlistina og hlakka til jólanna,“ segir Sól.

 

Skreytir þú mikið fyrir jólin?

„Ég myndi kannski ekki segja að ég væri algjörlega stjórnlaus í skreytingum fyrir jólin en ég á nokkra fallega hluti sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina sem mér finnst ómissandi að setja upp. Ég set jólaseríur í gluggakistur og svona en ekkert of mikið. Svo bý ég til jólailm sem fær að vera í potti í eldhúsinu sem við kveikjum undir reglulega til að fá lyktina í húsið.“

Þá segir hún engar reglur gilda um jólaskreytingar. „Ef það er einhver tími til að sleppa sér þá er það um jólin. Nema að ég hef óbeit á bláum jólaseríum og svona köldum orkusparandi hvítum seríum. Ég veit ekki hverjum datt í hug að það gæti verið kósí,“ segir hún.

Hvernig verður jólaborðið í ár?

„Ég ætla að vera í útlöndum þessi jólin. Ef ég væri heima myndi ég líklegast nota silfrið mitt sem ég er búin að safna síðustu árin í bland við diska og glös frá Louise Roe og vínglös frá Ann Demeulemeester. Ég myndi kaupa einhver ótrúlega falleg blóm hjá 4árstíðum og svo finnst mér mikilvægt að hafa fallegar tauservíettur og dúk sem ég á frá Tekla Fabrics. Oftast er ég með einhverjar skreytingar á disknum eins og lítið greni eða servíettuhringi. Við erum að fá svolítið af skrautmunum fyrir jólin í Officina sem eru fullkomnir á jólaborðið.“

 

Hvað borðar þú á jólunum?

„Ég ólst upp við að borða purusteik og síðar breyttist það í hamborgarhrygg. Eftir að ég kynntist manninum mínum ákváðum við að búa til okkar eigin hefðir og höfum beef wellington. Við erum svo alltaf með graflax í forrétt og möndlugraut í eftirrétt.“

Hverjir eru helstu tískustraumarnir semþú sérð núna fyrir jólin?

„Slaufan hefur verið sjóðandi heit síðan í fyrra og ég held að við munum slaufa yfir okkur í ár sem er bara fínt. Ég held hins vegar að það sem komi sterkt inn á næsta ári sé „tassels“, eða eins konar silkikögurdúskar. Þið lásuð það og þetta ótrúlega sérstaka orð silkikögurdúskur fyrst hér. Svo sér maður auðvitað að jólasveinarnir eru með puttann á púlsinum í töluvert víðari buxum en áður, gulrótarsniðið fór þeim ekki vel,“ segir hún og brosir.

 

Hver er uppáhaldsjólaminningin?

„Ég á svo margar góðar jólaminningar en það sem mér dettur fyrst í hug akkúrat núna eru fyrstu jólin okkar í Kaupmannahöfn eftir að við fluttum þangað. Þá var ég ólétt að öðru barninu okkar og við vorum laus við allt jólastress því það vorum bara við fjölskyldan og systir mín í heimsókn. Kaupmannahöfn verður mjög friðsæl og hátíðleg um jólin og fáir eru á ferli.“

Hvað langar þig að fá í jólagjöf?

„Ég skrifaði alltaf ítarlega lista um hvað mig langaði í hér áður en eftir að ég eignaðist börn hætti maður að pæla í hvað mann sjálfan langar í. Ég fer alltaf svolítið að huga að heimilinu fyrir jólin og mig langar í ýmislegt fyrir það. Ætli mig langi samt ekki mest að fá að sofa heila nótt um jólin, það væri frábær gjöf frá yngsta syni okkar hjóna.“

til baka