Guðjón Þórðarson, fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og enska liðsins Stoke, vill að Ísland spili heimaleik sinn í umspilinu um að halda sæti sínu í B-deild Þjóðadeildarinnar í Stoke.
https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2024/11/22/orlog_islands_radast/
Guðjón stýrði Stoke á árunum 1999 til 2002 þegar félagið var í eigu Íslendinga. Þá hafa fjölmargir Íslendingar leikið með liðinu í gegnum tíðina og þar á meðal Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ.
„Við eigum heimavöll á Englandi sem reyndist Íslendingum ágætlega á sínum tíma. Við eigum að fara til Stoke og spila landsleikinn þar,“ sagði Guðjón við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpinu Mín skoðun.
„Formaðurinn er fyrrverandi leikmaður Stoke, afi Ísaks var þarna við störf og pabbi Andra var þarna þó hann hafi ekki fengið að spila mikið hjá Tony Pulis.
Það eru fleiri tengingar við Ísland. Frændi Stefáns Teits var í Stoke og það yrði tekið vel á móti okkur. Þetta er kjörinn heimavöllur fyrir Ísland,“ bætti hann við.