Stjórnvöld á Spáni hafa sektað fimm lággjaldaflugfélög um samtals 179 milljónir evra, eða sem nemur ríflega 26 milljörðum íslenskra króna, fyrir óboðlega framkomu í garð viðskiptavina sinna.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá spænska neytendaráðuneytinu.
Flugfélögin fimm sem um ræðir eru Ryanair, EasyJet, Volotea, Vueling og Norwegian air.
Eru flugfélögin m.a. sektuð fyrir að taka ekki við reiðufé þegar viðskiptavinir vilja greiða fyrir flugmiða sem keyptir eru á flugvöllum, fyrir að rukka farþega aukalega fyrir handfarangur og fyrir að rukka þegar viðskiptavinir vilja taka frá sæti til að fullorðnir geti setið við hlið barna sinna eða annarra sem eru ósjálfbjarga.
Sektirnar eru sögulegar en aldrei áður hefur yfirvald sem fer með málefni neytenda beitt fyrirtæki slíkum viðurlögum, að því er fram kemur í yfirlýsingu neytendasamtakanna Facua.
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2023/03/08/hvita_husid_vill_banna_athaefi_play/
Farþegar látnir greiða fyrir útprentun á farmiðum
Ryanair hlaut hæstu sektina en flugfélagið var það fyrsta til að taka upp á því að rukka fyrir handfarangur í nóvember árið 2018. Er flugfélaginu gert að greiða 107,8 milljónir evra í sekt, eða því sem nemur 15,7 milljörðum króna.
Þá var Vueling sektað um 39,3 milljónir evra, EasyJet um 29,1 milljón evra, Norwegian Air um 1,6 milljónir evra og Volotea um 1,2 milljónir evra.
Sektirnar varða einnig misvísandi upplýsingagjöf og skort á verðgagnsæi sem gerir viðskiptavinum erfiðara fyrir að bera saman tilboð og taka upplýstar ákvarðanir.
Ryanair var sérstaklega sektað fyrir að rukka farþega óhóflega fyrir að prenta út farmiða þeirra við flugvallarhliðin ef þeir voru ekki með þá meðferðis.