Einar Jónsson, þjálfari Fram, var að vonum ánægður með níu marka sigur á Stjörnunni í 11. umferð Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld.
Einar skartaði nýrri klippingu í kvöld. Spurður að því hvort hún ætti einhvern þátt í stórum sigri Fram sagði Einar þetta:
„Ég fer alltaf í klippingu hjá Stjörnumanni og það hefur ekki klikkað hingað til. En að öllu gamni slepptu þá var Arnór Máni stórkostlegur í markinu með 16 varin skot og fjögur mörk. Við vorum flottir varnarlega, sérstaklega þegar við vorum að vinna upp góð forskot.
Síðan duttum við niður inn á milli og heilt yfir fannst mér þetta ekki góður handboltaleikur, verð ég að segja. Þetta er samt frábær sigur gegn flottu Stjörnuliði og ég var smeykur fyrir þennan leik því ég bjóst við miklu erfiðari leik.“
Fram kemst 5:0-yfir í upphafi leiks og þá tekur Stjarnan leikhlé. Síðan nær Stjarnan að minnka muninn í 8:7 og þetta virtist stefna í alvöru leik. Hvað gerist í þínu liði í þessum kafla leiksins?
„Markmiðið er alltaf að byrja vel og þeir voru líka klaufalegir í byrjun leiks og bara lélegir þannig að þetta var ekkert endilega okkar frammistaða sem skóp þessa góðu byrjun. Þetta var samt svolítið svona allan leikinn.
Við vinnum upp forskot og þeir síðan nálgast okkur. Síðan lendum við í smá basli þegar þeir ná að minnka niður í eitt mark og þá átti ég kannski að taka leikhlé en þeir voru bara góðir líka og sýndu þarna að þeir gátu alveg gert okkur erfitt fyrir,“ sagði hann.
Fram er með þessum sigri að stimpla sig formlega inn í toppbaráttu Íslandsmótsins. Næsti leikur ykkar er síðan gegn FH. Það er alvöru toppslagur ekki satt?
„Það er toppbaráttuslagur á föstudaginn eftir viku. Markmiðin okkar eru skýr, að við ætlum að berjast um alla titla sem í boði eru í vetur. Við höfum sagt það bæði inn á við og út á við. Hvað sem titillinn heitir þá ætlum við að vera með í baráttunni.
Eins og staðan er núna þá erum við á ágætis stað og erum á uppleið sem er alltaf jákvætt fyrir þjálfarana. Núna höldum við bara áfram að reyna bæta okkur og halda í við toppliðin,“ sagði Einar í samtali við mbl.is.