Sundsamband Íslands hefur gefið út mannvirkjaskýrslu þar sem gerð er þarfagreining er varðar byggingu sundlaugamannvirkja hér á landi.
„Sem málsvari sundíþróttarinnar telur SSÍ mikilvægt að koma því sjónarmiði á framfæri að sundíþróttamannvirki séu byggð eða endurgerð með það markmið að styðja við sundkennslu, æfinga- og keppnisfólk.
Í því samhengi má nefna mikilvægi þess að hægt sé að stunda kennslu og æfingar allt árið um kring innandyra, til að sporna gegn þeirri þróun sem hefur átt sér stað síðustu ár þar sem loka hefur þurft sundlaugum vegna heitavatnsskorts sem veldur því að sundkennsla og æfingar hafa verið felldar niður,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá SSÍ.
Sundkennsla ítrekað felld niður á Akranesi og Akureyri
Akranes og Akureyri eru sérstaklega nefnd til sögunnar í skýrslunni þar sem kemur fram að brýn þörf sé á byggingu innisundlauga í bæjarfélögunum tveimur.
„Markmið SSÍ með útgáfu og dreifingu á þessari yfirgripsmiklu skýrslu er að vekja athygli á öllum þeim mikilvægu þáttum sem horfa þarf til við byggingu sundlaugamannvirkja þannig að þau nýtist til sundkennslu og að byggja upp afreksmenn í sundi samhliða því að gagnast öðrum notendum.
Í þessu samhengi vill SSÍ koma því á framfæri að gríðarlega mikilvægt er að byggja sem fyrst innisundlaugar á Akranesi og Akureyri, en þar hefur sundkennsla ítrekað verið felld niður vegna veðurs auk þess sem skertar æfingar hafa ekki skilað sundfólkinu tilætluðum árangri,“ sagði einnig í tilkynningunni.