Ein af litríkari persónum sænsks viðskiptalífs á öldinni sem leið. Volvo-forstjórinn og -stjórnarformaðurinn Pehr G. Gyllenhammar, hefur yfirgefið sviðið.
Gyllenhammar, sem lengst af var þekktur undir því einfalda skammheiti PG, lést í dag, 89 ára gamall. Frá þessu greinir fjölskylda bifreiðajöfursins sænsku fréttastofunni TT.
PG var fæddur í Gautaborg 28. apríl 1935, sonur þeirra Pehr Gyllenhammar og Ainu Kaplan, og hefur sænska ríkisútvarpið SVT eftir blaðamanninum Kristinu Hedberg, sem á sínum tíma gerði heimildarþáttaröð um forstjóra eins þekktasta bifreiðaframleiðanda Evrópu, að erfitt væri að tína til nokkurn sem sent hefði frá sér aðrar eins bylgjur á ævi sinni, „...vibrerade mer under sitt liv“, eins og blaðamaðurinn orðar það á sinni tungu.
Sumt gekk – annað ekki
Undir stjórn PG, sem SVT kallar raunar einnig „Herra Volvo“, uxu og döfnuðu verksmiðjur þeirrar bifreiðar, sem átti að vera sú öruggasta í heimi, sem aldrei fyrr. Meðal annars keyptu Volvo-verksmiðjurnar stóran hlut í lyfjaframleiðandanum Pharmacia en aðrar tilraunir til stórra landvinninga á viðskiptasviðinu fóru einfaldlega í vaskinn, svo sem áætlanir um samruna við annan sænskan bifreiðarisa, Saab-Scania, árið 1977 auk samstarfs um olíuvinnslu með sænska ríkinu árið 1978. Þarna gekk hvorki né rak.
En Volvo er latnesk sögn, þýðir bókstaflega „ég snýst“, samanber enskuna „revolver“ yfir skammbyssu með snúningsskothylki, og sannarlega snerist Volvo í höndum PG sem settist í forstjórastólinn árið 1971 og sat til 1983, en eftir það sem stjórnarformaður til 1993. Á þessum áratugum naut Volvo fádæma vinsælda á Íslandi og muna lesendur, sem komnir eru af því allra léttasta, væntanlega glöggt eftir vinnuhestinum Volvo 240 GL sem aka mátti hátt í milljón kílómetra.
„Ég var búinn“
Snemma á tíunda áratugnum fór heldur betur að gusta um PG sem stjórnarformann. Hann gerði þá djarfa tilraun til að sameina fyrirtækið franska bifreiðaframleiðandanum Renault, nokkuð sem fór illilega fyrir brjóstið á þáverandi forstjóra, Sören Gyll, auk nokkurra stærstu eigenda Volvo.
Lenti Gyllenhammar og Gyll þar saman og lyktaði einvígi þeirra með því að sá fyrrnefndi sagði skilið við ekki síðra fjöregg sænsku þjóðarinnar en IKEA, ABBA, kjötbollur og Husqvarna-ryksugur. PG lét af stjórnarformennsku og flutti til London.
„Ég var búinn. Volvo var að baki, Svíþjóð var að baki,“ skrifaði hann mörgum árum síðar í bók sinni Sjónarhorn, Perspektiv á frummálinu. Þrátt fyrir mikla andstöðu við áætlanir hans um að ganga til samstarfs við Renault seldi Volvo-samsteypan bandaríska framleiðandanum Ford einkabílaframleiðslu sína á einu bretti sem áratug síðar seldi kínverska framleiðandanum Geely réttinn til að framleiða Volvo.
Risti marga sigurrún
PG kom víða að stjórnun stórfyrirtækja eftir Volvo-áratugina tvo þar sem hann tók við búinu af Gunnari Engellau, forstjóranum á undan. Hann varð á skömmum tíma annálaðasti iðnjöfur Svíþjóðar. Meðal stórfyrirtækja sem höfðu PG í stjórnum sínum á eftir Volvo má nefna Reuters-fréttastofuna, Rotschild Europe-fjárfestingabankann og breska tryggingarisann Commercial Union.
PG var lengst af kvæntur Christinu Engellau og eignaðist með henni fjögur börn, þau Ceciliu, Charlotte, Oscar og Sophie. Eftir andlát Engellau kvæntist hann blaðamanninum Christel Behrmann en hjónaband þeirra varði aðeins í tvö ár. Þriðja eiginkona hans var hin breska Lee Welton Croll og varð þeim dótturinnar Barrett auðið árið 2016.
Svo enn sé vitnað í sænska blaðamanninn Hedberg, sem hve gerst hefur fjallað um Volvo-forstjórann burtgengna, var hann „gríðarlega lifandi“ maður. „Það er dálítið undarlegt að átta sig á því að hann sé farinn. Orka hans á jörðinni var vel skynjanleg og við munum finna fyrir missi okkar,“ segir Hedberg við SVT.
SVT
Heimildaþáttaröðin Min sanning
Dagens Nyheter
Expressen
Norska viðskiptavefritið E24