Vålerenga og Bayern München skildu jöfn, 1:1, í Íslendingaslag í 4. umferð C-riðils Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í Ósló í kvöld. Á sama tíma tryggði Manchester City sér sæti í átta liða úrslitum með 2:1-sigri á Hammarby í D-riðli.
Í C-riðli er Bayern á toppnum með tíu stig og er langt komið með að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum. Vålerenga er áfram á botninum en vann sér inn sitt fyrsta stig í riðlinum.
Sædís Rún Heiðarsdóttir lék allan leikinn fyrir Vålerenga og Glódís Perla Viggósdóttir var fyrirliði og lék allan leikinn fyrir Bayern München.
Jovana Damnjanovic kom Bæjurum í forystu stundarfjórðungi fyrir leikslok áður en Emilie Thorsnes jafnaði metin fyrir Vålerenga tveimur mínútum fyrir leikslok eftir að hornspyrna Sædísar Rúnar frá hægri var skölluð áfram af Emmu Stölen Godö.
Shaw með tvennu fyrir City
Manchester City heimsótti Hammarby til Stokkhólms og vann með minnsta mun.
Þar með er liðið á toppnum með fullt hús stiga, 12, og fer í átta liða úrslit. Hammarby er í þriðja sæti með þrjú stig.
Khadija Shaw skoraði bæði mörk Man. City á milli þess sem Ellen Wangerheim jafnaði metin fyrir Hammarby.