„Við vorum með ólíka sýn á markaðsaðstæðum – áskoranir og tækifæri – og hvernig væri best að tryggja félaginu farsæla leið í gegnum það. Fyrst eigendur voru með aðra sýn en ég fannst mér rétt að leiðir okkar myndu skilja,“ segir Einar Gústafsson um starfslok sín hjá American Seafoods.
Einar kveðst ganga sáttur frá borði og segir mikinn heiður að hafa fengið að starfa sem forstjóri félagsins, þar sé gott fólk sem framleiðir afurðir í fremsta gæðaflokki og afbragðs skipakostur.
https://www.mbl.is/200milur/frettir/2024/11/21/einar_gustafsson_ekki_lengur_forstjori/
Skoðar kaup á félaginu
Raunar lýst Einari svo vel á félagið að hann vinnur að því ásamt hópi fjárfesta að festa kaup á félaginu sem nú er í eigu fjárfestingafélagsins Bregal Partners. Hann segir að enn sé nokkuð í land í þeim efnum og eru viðræður í gangi.
„Það er ekki endilega gott fyrir sjávarútvegsfyrirtæki að vera lengi í eigu fjárfestingasjóðs,“ segir Einar. „Miklar sveiflur geta verið í grein eins og sjávarútvegi og þurfa framtíðaráætlanir að taka mið af langtímamarkmiðum sem passa ekki alltaf við tímaramma sem fjárfestingasjóðir miða við,“ útskýrir hann.
Spurður hvað taki nú við, svarar Einar að það séu tækifæri víða en ekkert sé ákveðið. „Núna ætla ég bara að einbeita mér að því að njóta jólanna með fjölskyldunni.“