fim. 21. nóv. 2024 21:29
Reynir Þór Stefánsson með boltann í kvöld.
Fram nálgast toppbaráttuna

Fram og Stjarnan áttust við í 11. umferð Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Fram 35:26.

Eftir leikinn er Fram í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig en FH og Afturelding eru sömuleiðis með 15 stig en eiga leiki til góða líkt og Valur sem er í fjórða sætinu. Stjarnan er í 7. sæti með tíu stig og getur lið Gróttu komist yfir Stjörnuna með sigri á Aftureldingu annað kvöld. 

Lið Fram byrjaði mjög vel í kvöld og skoraði fimm fyrstu mörk leiksins áður en Stjarnan skoraði sitt fyrsta mark. Þá voru gestirnir úr Garðabæ búnir að klúðra vítaskoti og hraðaupphlaupi. 

Stjörnumenn tóku leikhlé í stöðunni 5:0 og eftir það unnu Garðbæingar sig inn í leikinn og náðu að minnka muninn niður í eitt mark í stöðunni 8:7 fyrir Fram.

Eftir það skildu leiðir aftur og Framarar juku muninn hægt og þétt. Náðu þeir mest sex marka forskoti í stöðunni 18:11 en þann mun lagaði Stjarnan með síðasta marki hálfleiksins. 

Staðan í hálfleik var 18:12.

Markahæstur í liði Fram í fyrri hálfleik voru þeir Rúnar Kárason, Ívar Logi Styrmisson og Dagur Fannar Möller, allir með þrjú mörk. Arnór Máni Daðason varði níu skot, þar af tvö vítaskot. 

Í liði Stjörnunnar var Pétur Árni Hauksson með þrjú mörk og varði Adam Thorstensen fimm skot, þar af eitt vítaskot. 

Seinni hálfleikur var í raun ekki frábrugðin þeim fyrri. Stjörnumenn héldu áfram að misnota góð tækifæri til að komast aftur inn í leikinn sem gaf heimamönnum í Fram tækifæri til að viðhalda forskotinu og auka það. 

Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var staðan 28:21 fyrir Fram, sjö marka munur og ekkert benti til þess að Garðbæingar næðu að vinna upp þann mun. 

Þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum kom markvörðurinn Arnór Máni Daðason Fram tíu mörkum yfir í leiknum í stöðunni 32:22 og leiknum var þá í raun lokið. 

Garðbæingar reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en náðu ekki lengra en svo að leiknum lauk með sigri Fram 35:36.

Fram leikur næst í deildinni gegn FH á meðan Stjarnan leikur gegn HK.

Markahæstir í liði Fram voru þeir Marel Baldvinsson og Ívar Logi Styrmisson með fimm mörk.

Arnór Máni Daðason varði 16 skot, þar af þrjú vítaskot og skoraði fjögur mörk og er klárlega maður leiksins. 

Markahæstur í liði Stjörnunnar var Hans Jörgen Ólafsson með fimm mörk. Adam Thorstensen varði tíu skot, þar af tvö vítaskot. 

til baka