fim. 21. nóv. 2024 18:09
Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Hótar Bretum og Bandaríkjamönnum

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir Rússa hafa hæft Úkraínu með nýrri meðaldrægri eldflaug. Um tilraunaskot hafi verið að ræða.

Hann varar við því að Rússar gætu beitt sömu eldflaugum gegn þeim ríkjum sem hafa heimilað Úkraínuher að skjóta langdrægum eldflaugum að rússneskri grundu, sem eru Bretland og Bandaríkin.

Segir Pútín að Rússar muni framvegis vara Úkraínumenn við áður en nýju eldflaugunum verði beitt aftur, til að gefa óbreyttum borgurum færi á að flýja.

Þetta kom fram í máli forsetans er hann ávarpaði rússnesku þjóðina.

Svar við árás Úkraínumanna

Rúss­ar skutu í morg­un langdrægri eldflaug að Úkraínu.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði „nýju rússnesku“ eldflaugina líkjast svokölluðum ICBM-eldflaugum, langdrægum eldflaugum með getu til að flytja kjarnavopn á milli heimsálfa.

Eldflaugin í morgun hafði ekki að geyma kjarna­odd, að sögn heim­ild­ar­manns inn­an úkraínska flug­hers­ins.

Úkraínsk stjórnvöld sögðu eldflaugina hafa hæft innviði í borginni Dnípró í austurhluta landsins. Ekki liggur þó fyrir hve umfangsmikið tjónið er.

Heim­ild­armaður í flug­hern­um segir að þetta sé í fyrsta sinn sem Rúss­ar hafi frá inn­rás­inni í Úkraínu notað slík vopn, sem geta hæft skot­mörk í mörg þúsund kíló­metra fjar­lægð.

Pútín segir árásina í morgun svar við árás Úkraínumanna fyrr í vikunni þar sem langdrægum eldflaugum frá Bretlandi og Bandaríkjunum var beitt gegn Rússlandi. 

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/11/21/skutu_langdraegri_eldflaug_i_att_ad_ukrainu/

Drífur nokkur þúsund kílómetra

Bresk stjórnvöld sögðu Rússa hafa skotið svokallaðri eldflaug með getu til að fara nokkur þúsund kílómetra að Úkraínu.

„Þetta er annað dæmi um kærulausa hegðun af hálfu Rússa, sem styrkir okkur aðeins í trú á mikilvægi þess að standa við bakið á Úkraínumönnum eins lengi og þörf krefur,“ segir talsmaður breska forsætisráðherrans Keirs Starmer við blaðamenn. 

Talsmaður Starmers segir eldflaugina hafa verið langdræga og geta flogið nokkur þúsund kílómetra en lýsir henni þó ekki sem flaug sem hafi drægni milli heimsálfa.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/11/19/ukrainuher_beitir_langdraegum_eldflaugum/

Heimild til að nota ATACMS-vopnakerfið á Rússland

Joe Biden Bandaríkjaforseti veitti Úkraínuher nýlega heimild til að nota öfl­ug­ar banda­rísk­ar lang­dræg­ar eld­flaug­ar, eða ATACMS–vopna­kerfið, á rúss­neskri grundu. Sumir bandarískir embættismenn töldu notkun kerfisins myndu leiða til stigmögnunar stríðsins.

Ákvörðunin var tek­in eft­ir að Rúss­ar sendu nærri 50 þúsund her­menn til Kúrsk–héraðs í suður­hluta Rúss­lands. Úkraínu­menn hófu inn­rás í héraðið í sum­ar.

Þúsund­ir norðurkór­eskra her­manna hafa einnig verið send­ir til héraðsins Rússlandsmegin.

Biden og ráðgjaf­ar hans hafa áhyggj­ur af því að þátt­taka Norður-Kór­eu geti leitt af sér nýj­an fasa í stríðinu.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/11/17/heimilar_ukrainu_ad_nota_langdraegar_eldflaugar/

til baka