Handknattleiksmaðurinn Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha, leikmaður Gróttu, lék á dögunum sína fyrstu landsleiki fyrir Grænhöfðaeyjar.
Hafsteinn Óli ferðaðist í sumar til Grænhöfðaeyja til þess að verða sér úti um ríkisborgararétt, en faðir hans er frá Afríkuríkinu og móðir frá Íslandi. Lék Hafsteinn Óli á sínum tíma fyrir yngri landslið Íslands.
Leikur Hafsteinn Óli gegn Íslandi á HM?
Hann bindur vonir við að fara með Grænhöfðaeyjum á HM 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi. Færi svo myndi fyrsti keppnisleikur Hafsteins Óla, sem er 24 ára gamall, einmitt vera gegn Íslandi í G-riðli.
Örvhenta skyttan skýrði frá því í samtali við Handbolta.is að hann hafi nýverið farið í æfinga- og keppnisferð með landsliði Grænhöfðaeyja til Kúveit og tekið þátt í þremur vináttulandsleikjum gegn Barein, Túnis og heimamönnum í Kúveit.
„Þetta var bara virkilega skemmtilegt og mér gekk vel. Lék um 30 mínútur í hverjum leik. Það var virkilega gaman að klæðast landsliðstreyjunni,“ sagði Hafsteinn Óli við Handbolta.is.