Þrátt fyrir að vera einungis 19 ára gömul skrifaði bikarmeistarinn Fanney Inga Birkisdóttir undir þriggja ára samning við sænska knattspyrnufélagið Häcken á dögunum en hún er uppalin hjá Val á Hlíðarenda.
Häcken hefur verið eitt besta kvennalið Svíþjóðar undanfarin ár en liðið hefur hafnað í öðru sæti úrvalsdeildarinnar undanfarin þrjú tímabil.
https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2024/10/18/seld_a_upphaed_sem_hefur_ekki_sest_adur_i_kvennabol/
Foreldrarnir spenntir
Fanney Inga er spennt fyrir því að standa á eigin fótum í Gautaborg og fær fullan stuðning að heiman.
„Mömmu og pabba líst mjög vel á þetta og þau eru full tilhlökkunar. Við bjuggum auðvitað í Svíþjóð þegar ég var lítil og ég kann tungumálið sem hjálpar mikið. Við erum með góða tengingu við landið og þau eru spennt að sjá hvernig mér tekst til. Þau munu fylgja mér út þessar fyrstu vikur á meðan ég er að koma mér fyrir og svona.
Það sem mér finnst kannski erfiðast í þessu er að flytja burt frá yngri systkinum mínum tveimur. Í hvert skipti sem ég fer í landsliðsverkefni, í kannski tíu daga, þá líður mér eins og þau séu búin að breytast heilan helling á meðan ég er í burtu þannig að það verður áhugavert að yfirgefa þau í nokkra mánuði núna. Litla systir mín er búin að lofa því að hringja í mig að minnsta kosti þrisvar á dag og svo er líka bara eitt flug á milli okkar, allavega á sumrin, þannig að það er lítið mál fyrir þau að kíkja í heimsókn til mín,“ sagði Fanney Inga.
Ítarlegt viðtal við Fanneyju Ingu má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.