Það gekk á ýmsu í höfninni í Alta í Noregi í nótt er um tuttugu sjómenn komu saman til að halda veislu um borð í fiskiskipi sem lá þar bundið við bryggju. Eitthvað virðist hafa farið illa í mannskapinn þegar veislu lauk og var gripið til handalögmála. Bættust fljótlega í átökin sjómenn úr nærliggjandi bátum, að því er segir í Kyst og Fjord.
Lögreglan í Alta segir veisluhöldin hafi „farið aðeins úr böndunum,“ að því er segir í umfjöllun Dagbladet.
„Ágreiningur kom upp milli þátttakenda og brutust út slagsmál,“ er haft eftir Lars Rune Hagen, aðgerðarstjóra lögreglunnar. Hann segir ró hafa færst yfir mannskapinn áður en lögreglan mætti á vettvang og snéru fljótlega sjómenn aftur til sinna báta.
Enginn þurfti aðhlynningu í kjölfar átakanna.