Það er í sjálfu sér ekki skrítið að umfjöllun um ilmi skuli nær alfarið hverfast um það sem er nýtt og spennandi í búðunum. Aldrei hafa ilmhönnuðir verið duglegri við að dæla út áhugaverðum nýjum blöndum og eru neytendur ólmir að fræðast um það sem bæst hefur við úrvalið.
En það nýjasta er ekki alltaf best og stundum getur verið sniðugt að leita aftur til fortíðarinnar. Það er ekki að ástæðulausu að sumir ilmir hafa verið í framleiðslu í marga áratugi og oft að eldri ilmirnir gefa þeim nýju ekkert eftir. Því til viðbótar eru gömlu ilmirnir oft mun ódýrari en þeir nýju enda erfitt fyrir framleiðendurna að réttlæta hátt verð á gamalli vöru sem hvergi er auglýst og fær jafnvel ekki lengur hillupláss í fínum búðum.
Ilmur með axlapúða
Verandi orðinn svolítið þreyttur á því að þræða ilmbúðirnar í leit að nýjungum tók ég upp á því – í hálfgerðu bríaríi – að panta flösku af Aramis sem pabbi gamli var duglegur að nota þegar ég var lítill gutti. Aramis er algjör bomba sem í mínum huga fangar anda 9. áratugarins; auðþekkjanleg, þykk og kröftug blanda af karlmannlegustu sort sem læðist ekki með veggjum en er um leið tiltölulega fáguð og yfirveguð.
Aramis-línan tilheyrir Estée Lauder-fjölskyldunni og kom fyrst á markað fyrir sléttum sex áratugum. Ilmurinn var ekki lengi að slá í gegn og fljótt varð til fjölbreytt lína af alls kyns sérútgáfum og blöndum; ilmvötnum, sápum og kremum. Mér sýnist að nýjasta viðbótin, Aramis Special Blend, hafi komið út 2019 og af lýsingum ilmáhugamanna virðast nýju blöndurnar áhugaverðar þó að það sé illmögulegt að finna þær til sölu annars staðar en hjá litlum og sérhæfðum netverslunum. Á vefsíðu Estée Lauder eru í dag aðeins sýndar fjórar vörur úr Aramis-línunni: eau de toilette, after shave og sturtusápa, auk Aramis Tuscany sem hefur verið á markaðinum síðan 1984.
Ég fann mína flösku hjá Amazon í Japan, en man að fyrir áratug rakst ég á Aramis til sölu innan um sólarvörn og plástra í litlu apóteki í London. Svona skýtur Aramis upp kollinum hér og þar og kostar ekki mikið en reikna má með að þurfa að borga í kringum 5.000 kr. fyrir 110 ml flösku.
Eitthvað hafði breyst
Þegar ég fékk Aramis-flöskuna í hendurnar uppgötvaði ég að ilmurinn var, því miður, ekki alveg eins og í minningunni. Fyrst hélt ég að þefskynið hjá mér hefði ef til vill breyst frá því ég var 10 ára, eða að ekki mætti treysta 30 ára gömlum æskuminningum, en svo fékkst það staðfest með aðstoð Google að líkt og með svo marga ilmi hefur uppskriftinni verið breytt í gegnum árin og virðist síðasta breyting hafa átt sér stað árið 2019.
Aramis stendur enn fyrir sínu og er ilmurinn leðurríkur, kryddaður með grænum tónum en varan var betri hér áður fyrr og þykir hafa versnað töluvert með nýjustu blöndunni.
Ýmsar ástæður eru fyrir því hvers vegna ilmframleiðendur krukka í uppskriftir sínar. Ekki má gleyma því að ilmgerð er nákvæmt og fíngert listform þar sem unnið er með lifandi hráefni og oft geta óviðráðanlegir þættir á borð við veðurfar og gæði uppskerunnar haft áhrif á ilmefnin sem notuð eru til framleiðslunnar. Stundum gerist það meira að segja að styrjaldir hafa áhrif á aðfangakeðjuna og byggðist t.d. upphaflega formúlan að Chanel N°19 á ilmefnum sem unnin voru úr plöntum af sömu ætt og íslenska hvönnin, sem ræktuð var af bændum í Íran en eftir uppreisnina þar í landi fór hráefnisframleiðslan úr skorðum og ekki annað hægt en að breyta samsetningu ilmvatnsins.
Bjúrókratarnir í Brussel eiga það líka til að skemma góðar ilmblöndur og virðist sem með hverju árinu takist þeim að setja ný ilmefni á bannlista bara vegna þess að þau gætu mögulega valdið einhverri ertingu hjá agnarsmáum hópi fólks sem ekkert þolir. Mörgum ilmhönnuðum líst ekki á þessa þróun, því jafnt og þétt fækkar á lista þeirra hráefna sem þeir mega leika sér með og ekkert sem heitir að skipta bönnuðu efni út fyrir eitthvað keimlíkt – nefið greinir alltaf muninn.
Svo er uppskriftunum stundum breytt einfaldlega vegna þess að einhverjum stjórnandanum finnst að aðlaga þurfi ilminn að nýjum tíðaranda og tískusveiflum, eða hreinlega kreista fleiri krónur úr framleiðslunni: minnka kannski hlutfall dýrustu ilmefnanna, eða lækka ilmolíuhlutfallið, og vona að neytendur bregðist ekki illa við.
Fyrir vikið hefur orðið til safnaramarkaður á netinu og rétt eins og með hágæðavín eru sumar gömlu ilmvatnsflöskurnar fágætar, eftirsóttar og kosta skildinginn.
Langi lesendur að endurnýja kynnin af ilmi sem þeir héldu upp á fyrir mörgum árum og áratugum er kannski vissara að byrja á rannsóknarvinnu á netinu (t.d. með leitarorðinu „reformulated“). Ef leitin leiðir í ljós umræður í spjallhópum ilmnörda um að blöndunni hafi verið breytt þá er ef til vill best að skima uppboðsvefi á borð við eBay eftir gömlum pakkningum til sölu.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag í lífstílsdálkinum Hið ljúfa líf.