Leikur Besiktas og Maccabi Tel Aviv, sem átti að fara fram í deildarkeppni Evrópudeildarinnar í Istanbúl í Tyrklandi 28. nóvember, hefur verið færður til Ungverjalands.
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, tilkynnti um ákvörðun sína í gær. Ákvörðunin er tekin í kjölfar átaka milli múslima í Amsterdam og stuðningsmanna Maccabi Tel Aviv fyrir og eftir 5:0-tap ísraelska liðsins í Evrópudeildinni í síðustu viku.
Leikurinn fer fram án áhorfenda á Nagyerdei-leikvanginum í Debrecen. Samkvæmt AP-fréttaveitunni vildu tyrknesk yfirvöld ekki að leikurinn færi fram í Tyrklandi, þar sem meirihluti íbúa eru múslimar.
Á samfélagsmiðlum Besiktas kom fram að Ungverjaland hafi verið eina landið sem vildi rétta fram hjálparhönd. Yfirvöld þar í landi hafi svo ákveðið að engir áhorfendur yrðu leyfðir.