þri. 12. nóv. 2024 20:44
Ingvi Hrafn Óskars­son lögmaður í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Ríkið gæti orðið skaðabótaskylt

„Niðurstaðan byggist á því að það sé sérregla í í íslensku lögunum og þar með hefur tilskipunin verið ranglega innleidd sem skapar skaðabótaskyldu íslenska ríkisins ótvírætt,“ seg­ir Ingvi Hrafn Óskars­son, lögmaður lán­takana sem ráku dómsmál gegn Íslandsbanka en bankinn var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í dag. 

Áður hefur verið greint frá að íslenska ríkið gæti mögu­lega orðið skaðabóta­skylt ef mun­ur reyn­ist vera milli nú­gild­andi laga og þeirra Evr­ópu­til­skip­ana sem EFTA bend­ir á í tengsl­um við vaxta­málið svo­kallaða.

Íslandsbanki hafði betur í vaxtamálinu (mbl.is)

For­saga máls­ins er að Neyt­enda­sam­tök­in skipu­lögðu hóp­mál­sókn árið 2021 gegn Lands­bank­an­um, Íslands­banka og Ari­on banka.

Við mála­rekst­ur var ákveðið að leita ráðgef­andi álits EFTA-dóm­stóls­ins vegna skil­mála lán­anna, en EFTA eru Fríversl­un­ar­sam­tök Evr­ópu.

Komst dóm­stóll­inn að þeirri niður­stöðu að skil­mál­ar lána með breyti­leg­um vöxt­um á Íslandi væru óskýr­ir – hinn al­menni lán­tak­andi skildi ekki þá út­reikn­inga sem vext­irn­ir byggðu á.

Munu áfrýja beint til Hæstaréttar (mbl.is)

Íslenskra dómstóla að meta

EFTA-dóm­stól­inn set­ti þó þann fyr­ir­vara að það sé ís­lenskra dóm­stóla að meta hvort niðurstaða EFTA sam­ræm­ist ís­lensk­um lög­um.

Hafa ber í huga EES regl­ur sem inn­leidd­ar hafa verið ber að túlka í sam­ræmi við EES samn­ing­inn og í sam­ræmi við ráðgjöf EFTA-dóm­stóls­ins.

EES-tilskipanir ekki innleiddar með réttum hætti

Teit­ur Björn Ein­ars­son, formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is og þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, benti á, í viðtali við mbl.is í maí, að ef ís­lensk­ir dóm­stól­ar myndu dæma bönk­un­um í hag gæti það leitt í ljós að þær EES-til­skip­an­ir sem eiga und­ir í mál­inu hafi ekki verið leidd­ar inn í ís­lensk­an rétt með full­nægj­andi hætti.

Myndi það þá þýða að íslenska ríkið yrði skaðabótaskylt. 

Ríkið gæti hafa bakað sér skaðabótaskyldu (mbl.is)

„Þá er íslenska ríkið skaðabótaskylt“

„Þetta er mitt mat,“ segir Ingvi Hrafn eftir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness.

Segir hann að niðurstaða dómsins þýði að tilskipun um fasteignalán til neytenda hafi verið ranglega innleidd á Íslandi og ekki leitt af sér þá vernd neytenda sem tilskipunin var ætluð fyrir. 

„Af því leiðir að íslenska ríkið gæti orðið skaðabótaskylt vegna þess tjóns sem neytendur hafa orðið fyrir ef þetta verður endanleg niðurstaða.

Það er bara grunnregla að ef að tilskipun innleiðir ekki réttindi fyrir einstaklinga með réttum hætti og takmarka þau með einhverjum hætti að þá er íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart viðkomandi einstaklingum.“

til baka