„Niðurstaðan byggist á því að það sé sérregla í í íslensku lögunum og þar með hefur tilskipunin verið ranglega innleidd sem skapar skaðabótaskyldu íslenska ríkisins ótvírætt,“ segir Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður lántakana sem ráku dómsmál gegn Íslandsbanka en bankinn var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í dag.
Áður hefur verið greint frá að íslenska ríkið gæti mögulega orðið skaðabótaskylt ef munur reynist vera milli núgildandi laga og þeirra Evróputilskipana sem EFTA bendir á í tengslum við vaxtamálið svokallaða.
Íslandsbanki hafði betur í vaxtamálinu (mbl.is)
Forsaga málsins er að Neytendasamtökin skipulögðu hópmálsókn árið 2021 gegn Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka.
Við málarekstur var ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna skilmála lánanna, en EFTA eru Fríverslunarsamtök Evrópu.
Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að skilmálar lána með breytilegum vöxtum á Íslandi væru óskýrir – hinn almenni lántakandi skildi ekki þá útreikninga sem vextirnir byggðu á.
Munu áfrýja beint til Hæstaréttar (mbl.is)
Íslenskra dómstóla að meta
EFTA-dómstólinn setti þó þann fyrirvara að það sé íslenskra dómstóla að meta hvort niðurstaða EFTA samræmist íslenskum lögum.
Hafa ber í huga EES reglur sem innleiddar hafa verið ber að túlka í samræmi við EES samninginn og í samræmi við ráðgjöf EFTA-dómstólsins.
EES-tilskipanir ekki innleiddar með réttum hætti
Teitur Björn Einarsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á, í viðtali við mbl.is í maí, að ef íslenskir dómstólar myndu dæma bönkunum í hag gæti það leitt í ljós að þær EES-tilskipanir sem eiga undir í málinu hafi ekki verið leiddar inn í íslenskan rétt með fullnægjandi hætti.
Myndi það þá þýða að íslenska ríkið yrði skaðabótaskylt.
Ríkið gæti hafa bakað sér skaðabótaskyldu (mbl.is)
„Þá er íslenska ríkið skaðabótaskylt“
„Þetta er mitt mat,“ segir Ingvi Hrafn eftir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness.
Segir hann að niðurstaða dómsins þýði að tilskipun um fasteignalán til neytenda hafi verið ranglega innleidd á Íslandi og ekki leitt af sér þá vernd neytenda sem tilskipunin var ætluð fyrir.
„Af því leiðir að íslenska ríkið gæti orðið skaðabótaskylt vegna þess tjóns sem neytendur hafa orðið fyrir ef þetta verður endanleg niðurstaða.
Það er bara grunnregla að ef að tilskipun innleiðir ekki réttindi fyrir einstaklinga með réttum hætti og takmarka þau með einhverjum hætti að þá er íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart viðkomandi einstaklingum.“