Forsýning á Gladiator 2 fór fram í Ásbergi, Sambíóunum í Kringlunni, í gærkvöldi og fylltust öll 72 sætin af gestum sem mættu til að sjá framhaldið á hinni goðsagnakenndu kvikmynd. Stemningin var eftirminnileg, þar sem áhorfendur fengu hasar og spennu beint í æð.
Gladiator 2 byggir á arfleifð fyrstu myndarinnar, þar sem nýjar persónur taka við keflinu og draga áhorfendur aftur inn í stórbrotinn heim. Bardagaatriðin og kvikmyndatakan heilluðu viðstadda, en myndin tekst einnig á við sögur um hefnd, réttlæti og mannlega þrautseigju.
Myndin, sem skartar Paul Mescal í aðalhlutverki ásamt Pedro Pascal, Denzel Washington og Connie Nielsen, meðal annarra – hefur hlotið góðar viðtökur frá gagnrýnendum og áhorfendum.
Þekkt andlit úr útvarpi og skemmtanalífi settu svip sinn á forsýninguna. Meðal þeirra sem mættu voru útvarpsstjarnan og söngkonan Regína Ósk og eiginmaður hennar, söngvarinn Sigursveinn „Svenni“ Þór Árnason, útvarpsmaðurinn Ásgeir Páll með eiginkonu sinni Elínu, Heiðar Austmann, Bolli Már og fleiri. Að auki fengu nokkrir heppnir aðdáendur, sem unnu miða hjá K100, tækifæri til að vera með í þessum eftirminnilega viðburði og njóta myndarinnar með góðu fólki.
Hér eru nokkrar myndir frá kvöldinu.