þri. 12. nóv. 2024 10:40
Ríkisstjórnin sem Olaf Scholz myndaði í nóvember árið 2021 sprakk í síðustu viku.
Stefnt að kosningum í febrúar

Stærstu stjórnmálaflokkar Þýskalands hafa gert samkomulag um að ganga fyrr til kosninga og kjósa 23. febrúar. Þriggja flokka ríkisstjórn sem Olaf Scholz Þýskalandskanslari leiddi sprakk í síðustu viku.

Þetta herma heimildir AFP-fréttaveitunnar.

Um er að ræða samkomulag á milli Sósíaldemókrata, sem er stjórnarflokkur Olaf Scholz, og Kristilegra demókrata sem er stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/11/08/meirihluti_thyskra_kjosenda_vill_kosningar_strax/

Scholz vildi kosningar í mars

Frjáls­lynd­ir demó­krat­ar slitu stjórn­ar­sam­starf­inu í síðustu viku eft­ir að Scholz rak Christian Lindner fjár­málaráðherra úr embætti en hann taldi að ekki væri leng­ur traust á milli þeirra og því gætu þeir ómögu­lega unnið sam­an.

Síðan þá hafa Sósíaldemókratar og Græningjar leitt minnihlutastjórn.

Þótt Scholz hafi lagt til tímaáætlun sem myndi leiða til kosninga í lok mars höfðu Kristilegir demókratar krafist kosninga í janúar.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/11/06/rikisstjorn_scholz_sprungin/

Nákvæm dagsetning ekki staðfest

Carsten Linnemann, ritari Kristilegra demókrata, sagði í morgun að hann gerði nú ráð fyrir að kosningarnar færu fram annaðhvort 16. eða 23. febrúar.

„Það lítur út fyrir að þannig muni það enda. Það verður málamiðlunin,“ sagði Linnemann í samtali við ríkisútvarpið ZDF.

Nákvæm dagsetning verður ákveðin þegar Scholz boðar til vantraustsatkvæðagreiðslu á þinginu.

Ef þingið lýsir yfir vantrausti, eins og búist er við, hefur Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, 21 dag til að rjúfa þing og þá þarf að kjósa á næstu 60 dögum.

til baka