mán. 11. nóv. 2024 20:40
Dúkkurnar eru gerðar eftir sögupersónum Wicked, en leik- og söngkonurnar Cynthia Erivo og Ariana Grande fara með hlutverk þeirra.
Hlekkur á klámsíðu á leikfangaumbúðum

Leikfangaframleiðandinn Mattel biðst velvirðingar á að hafa óvart sett hlekk á klámsíðu í stað vefsíðu kvikmyndarinnar Wicked á umbúðir dúkkna í sölu fyrirtækisins.

Dúkkurnar eru gerðar í líki Ariönu Grande og Cynthiu Erivo sem fara með hlutverk Elphöbu og Glindu í kvikmyndaútgáfu söngleiksins Wicked, sem gerist í galdraheimi Oz.

Dúkkurnar eru seldar í kössum sem á er letraður hlekkur á vefsíðuna Wicked.com en um er að ræða ansi vandræðaleg mistök þar sem netslóð kvikmyndarinnar er Wickedmovie.com. Netslóðin Wicked.com er fyrir klámsíðu.

Margar dúkkur þegar úr sölu

Í yfirlýsingu sagði Mattel að forsvarsmönnum fyrirtækisins hefði verið greint frá villunni nýlega. Þeim þættu mistökin afar miður og væru þegar að taka skref til að ráða bót á þeim.

Fyrirtækið hefur ekki staðfest hvort það þýði að fjarlægja allar dúkkurnar úr sölu en AP-fréttastofan greinir frá að margar Wicked-dúkknanna virðist uppseldar eða ekki lengur í sölu á Amazon, Target og Mattel.

til baka