mán. 11. nóv. 2024 15:30
Jamie Oliver hefur beðist afsökunar og segist miður sín yfir að hafa sært einhvern.
Sjónvarpskokkur tekur móðgandi barnabók úr sölu

Sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver hefur tekið úr dreifingu og sölu barnabók sem hann sendi nýlega frá sér vegna ásakana um að í bókinni setji hann fram ákveðna staðalímynd af frumbyggjum Ástralíu. BBC greinir frá.

Um er að ræða 400 blaðsíðna ævintýrabók fyrir börn sem ber heitið Billy and the Epic Escape, og kom út fyrr á árinu. Bókin fjallar um stúlku af frumbyggjaættum sem býr yfir dulrænum hæfileikum. Hún býr hjá fósturforeldrum en er rænt frá heimili sínu í Ástralíu.

 

Oliver segist miður sín 

Leiðtogar í hópi Ástrala af frumbyggjaættum hafa sagt að bókin sé móðgandi, þar sem hún innihaldi villandi orðanotkun og geri lítið úr upplifun og sögu frumbyggja ásamt því að mála upp ákveðnar staðalímyndir.

Oliver, sem um þessar mundir er staddur í Ástralíu við kynningu á nýrri matreiðslubók, hefur beðist afsökunar og segist miður sín yfir því að hafa sært einhvern. 

Bókin er gefin út af Penguin Random House UK og segir talsmaður útgáfunnar að Oliver hafi óskað eftir því að ráðgjafi af frumbyggjaættum læsi yfir handritið, en fyrir mistök hafi það ekki verið gert.

til baka