Bandaríkin munu halda áfram að berjast gegn hlýnun jarðar þrátt fyrir endurkjör Donalds Trumps sem Bandaríkjaforseta.
John Podesta, loftslagssendiherra Bandaríkjanna, greindi frá þessu á loftslagsráðstefnunni COP29.
Endurkjör Trumps hefur varpað skugga á viðræðurnar í Baku í Aserbaísjan vegna þess að hann dró á sínum tíma Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu, ásamt því að hann hefur reglulega lýst yfir efasemdum um hlýnun jarðar.
Podesta viðurkenndi að næsta ríkisstjórn „myndi reyna að taka u-beygju“, en bætti við að bandarískar borgir, -ríki og -einstaklingar myndu sjá til þess að ekki yrði af því.
„Á sama tíma og ríkisstjórn Bandaríkjanna undir stjórn Donalds Trumps myndi gera loftslagsbreytingar að aukaatriði heldur vinnan vegna loftslagsbreytinga áfram í Bandaríkjunum með dugnað, ástríðu og trú að vopni,“ bætti hann við.
„Þetta eru ekki endalokin í baráttu okkar fyrir hreinni, öruggari plánetu…Baráttan en stærri en einar kosningar, einn pólitískur snúningur í einu landi.“