mán. 11. nóv. 2024 20:10
Mohammed bin Salman á fundi með utanríkisráðherra Bandaríkjanna í október.
Krónprins krefst tafarlauss vopnahlés

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, krafðist tafarlauss vopnahlés á Gasasvæðinu og í Líbanon á ráðstefnu í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, í morgun.

Þar funda saman leiðtogar Arabaríkja og Samtök um íslamska samvinnu (e. Organisation of Islamic Cooperation). Litið er á ráðstefnuna sem tækifæri til að senda skilaboð til Donalds Trumps, verðandi forseta Bandaríkjanna.

Við upphaf ráðstefnunnar sagði Mohammed bin Salman, sem ræður í raun og veru yfir Sádi-Arabíu, að alþjóðasamfélagið yrði „tafarlaust að stöðva aðgerðir Ísraela gegn bræðrum okkar í Palestínu og Líbanon“. Hann fordæmdi hernað Ísraela á Gasasvæðinu og sagði hann „þjóðarmorð“.

 

„(Sádi-Arabía) staðfestir stuðning sinn við bræður okkar í Palestínu og Líbanon við að stöðva þær hrikalegu afleiðingar sem áframhaldandi hernaður Ísraela hefur á mannúðarmál,“ sagði krónprinsinn.

Í drögum að ályktun ráðstefnunnar er lögð áhersla á stuðning við réttindi Palestínumanna „sem snúast fyrst og fremst um rétt þeirra til frelsis og til sjálfstæðs og fullvalda ríkis“.

til baka