Breskur dómstóll hefur dæmt karlmann á sextugsaldri í fimm ára fangelsi fyrir að hvetja til hryðjuverka í færslum sem hann birti á samfélagsmiðlum á meðan kórónuveirufaraldurinn gekk yfir. Hann birti m.a. myndir af vopnum og sprengingum þegar hann birti færslurnar.
Patrick Ruane, sem er 55 ára gamall, er sagður aðhyllast ýmiss konar samsæriskenningar. Hann var sakfelldur fyrir tvo ákæruliði en árið 2021 lagði hann m.a. til að Chris Witty, landlæknir Englands, yrði barinn í höfuðið með gaddakylfu.
Þá tók Ruane þátt í umræðum á tveimur spjallþráðum á vefsvæði Telegram þar sem hann sagði að það ætti að skjóta skapara covid-bóluefnis AstraZeneca.
Gekk of langt
Dómarinn Richard Marks sagði að ummæli Ruane hefðu verið „afar hættuleg“ á víðsjárverðum tímum. Sú hætta hefði verið fyrir hendi að fólk myndi bregðast við þeim og ráðast á fólkið.
„Þú áttir, að sjálfsögðu, fullan rétt á því að tjá skoðanir þínar opinberlega og gera það á afar sannfærandi og kraftmikinn máta, ef þú vildir,“ sagði Marks.
„Þú gekkst aftur á móti mun lengra og með því gerðist þú brotlegur við lög sem þú hefur nú verið sakfelldur fyrir.“