þri. 12. nóv. 2024 06:30
Ingibjörg Davíðsdóttir er ástríðukokkur og kaffinörd. Íslenska hráefnið er hennar uppáhalds og veit hún ekkert betra en að elda íslenska þjóðarrétti. Hér er hún með hundinum sínum Zorba sem er tæplega tveggja ára gamall af tegundinni pug.
Horfði á Húsið á sléttunni með súkkulaðiköku og mjólkurglas við hönd 

Ingibjörg Davíðsdóttir ástríðukokkur og sendiherra hefur ákveðið að skella sér í pólitíkina eftir tugi ára í utanríkisþjónustunni. Hún hefur einstaklega gaman að því að að elda og leggur mikið upp úr góðum efnivið. Hún elskar fátt meira en íslenskt hráefni og er það ávallt í fyrsta sæti. 

Ingibjörg er eins og áður sagði sendiherra og segist líka vera mikil sveitastelpa. Hún er nú oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi. Ingibjörg starfaði í utanríkisþjónustunni í 25 ár, meðal annars sem sendiherra Íslands í Noregi, ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum ásamt því að starfa í sendiskrifstofum Íslands í Genf, Vínarborg og London.

Á djúpar rætur í sveitinni

Ingibjörg tók sér leyfi frá utanríkisþjónustunni í fyrra og stofnaði Íslenska fæðuklasann þar sem hún er stjórnarformaður. Ingibjörg er frá bænum Arnbjargarlæk í Þverárhlíð í Borgarbyggð og á djúpar rætur í sveitinni. Hún hefur hefur ástríðu fyrir íslenskri matvælaframleiðslu og eflingu byggðar í landinu, ekki síst með aukinni verðmætasköpun í landbúnaði, þar sem hún segir tækifærin fjölmörg. 

Segðu okkur aðeins frá ástríðu þinni fyrir matargerð. Finnst þér skemmtilegra að elda en að baka?

„Mér finnst gaman að elda og ég elda fjölbreytt. Ég legg mikið upp úr góðum efnivið og elska að nota íslensk hráefni í eldamennskuna, hef alltaf saknað íslenska fisksins og lambakjötsins þegar ég hef búið erlendis,“ segir Ingibjörg.

„Mér finnst miklu skemmtilegra að elda en baka. Í dag baka ég einungis fyrir jólin, eða kannski frekar föndra, ég geri Sörur, með mínu lagi en þeir sem gera Sörur vita hvað þetta er skemmtilegt föndur. Mér er reyndar minnisstætt fyndið atvik þegar dóttir mín var lítil og við vorum að fara að halda upp á afmælið hennar, að ein systir mín mætti í veisluna með tertur sem dóttlan mín hafði beðið hana um að baka því móðir hennar, ég, gerði ekki nógu og góðar kökur. En Sörurnar mínar eru allavega vinsælar,“ segir Ingibjörg og hlær. 

Þegar kemur að matargerð eftir árstíðum, breytist matargerðinni þín eftir hvaða árstíð er?

Matargerð hjá mér fer eiginlega meira eftir því hvar ég er og stemningunni hverju sinni. Útigrilluð nautalund sem keypt er beint frá býli er mjög vinsæl hjá mér allan ársins hring. Svo er ég mjög hrifin af íslenskri villibráð en þyrfti að komast á matreiðslunámskeið hjá mömmu til að komast með tærnar þar sem hún hefur hælana við þá matargerð. Plokkfiskur er í líka uppáhaldi og þegar álag hefur verið mikið og lítill tími aflögu þá hefur plokkfiskurinn alltaf komið sterkur inn í mína eldamennsku.

 

Snitsel er líka í uppáhaldi, sem er ákveðin kúnst að gera á réttan máta, sem ég kynntist ég þegar ég bjó í Austurríki og hef verið að fullkomna það eins og sagt er. Svo er ég líka svolítið kaffinörd og finnst fátt betra á morgnana en þykkur espresso úr Elektravélinni minni. Svo elska ég íslenska vatnið, það er best í heimi.“

 

Lambahryggur á gamla mátann nostalgía

Aðspurð segist Ingibjörg var haldin að ákveðinni fortíðarþrá þegar hún er spurð um uppáhaldsvetrarréttinn sinn.

„Ég er uppalin við það að á sunnudögum heima í sveitinni var alltaf lambalæri eða lambahryggur með brúnni sósu, brúnuðum kartöflum, rauðkáli og baunum. Þetta finnst mér besti matur í heimi, sérstaklega þegar veðrið var vont. Svo í kaffinu var súkkulaðikaka sem mamma bakaði. Mín uppáhaldsminning er þegar við gæddum okkur á kökunni með ískaldri mjólk og horfðum á þættina Húsið á sléttunni.

Í seinni tíð hef ég haft það fyrir hefð að matreiða lambahrygg á gamla mátann til hátíðarbrigða sem kveikir á mikilli nostalgíu og er líka það besta sem ég fæ,“ segir Ingibjörg dreymin á svipinn. 

„Ég hef mikla ástríðu fyrir íslenskri fæðuframleiðslu og vil tala um hana við hvert tækifæri sem ég fæ. Íslenskar afurðir eru framúrskarandi á heimsvísu og það er mér hjartans mál að dreifa þeim boðskap og efla íslenskan landbúnað. Það er sko ekki leiðinlegt að geta eldað góðan mat úr þessu góða hráefni sem við erum svo heppin að geta gengið að,“ segir Ingibjörg að lokum.

 

til baka