Mikið var dýrðir á Stóreldhússýningunni sem haldin var á dögunum. Þar mátti sjá mörg kunnugleg andlit í bransanum í bland við ný. Sverrir Viðar Hauksson er einn af nýgræðingunum á þessu sviði og hóf innkomuna á sýninguna með stæl.
Sverrir kemur nýr inn í stóreldhús- og verslunargeirann samhliða kaupum hans á tveimur félögum, Bako Ísberg og Verslunartækni og Geira sem nýlega voru sameinuð undir heitinu Bako Verslunartækni (BVT). Sverrir leiðir hið nýja félag sem kom fram á Stóreldhús sýningunni í fyrsta skipti undir heitinu Bako Verslunartækni. Hann segir virkilega spennandi tíma framundan og félagið nýti sýninguna til að kynna sitt sterka vöruframboð og nýjungar.
Mikilvægur vettvangur fyrir fyrirtækið
„Við hjá Bako-Verslunartækni vorum á sýningunni í ár með megin áherslur frá tveimur af okkar öflugustu birgjum í veitingageiranum, Rational og Meiko. Fulltrúar beggja þessara fyrirtækja voru á staðnum, kokkur frá Rational sem töfraði fram ljúffengar veitingar fyrir gesti og síðan sölustjóri frá Meiko sem eru sérfræðingar í uppþvottavélum og stærri uppþvottakerfum. Meiko Green er síðan ný lausn frá þeim, í meðferð lífræns úrgangs, sem við erum að kynna fyrir sýningargestum í fyrsta skipti og er gríðarlega spennandi nýjung fyrir íslenska veitingageirann,“ segir Sverrir spenntur á svipinn.
Aðspurður segir Sverrir að sýning sem þessi sé mikilvægur vettvangur fyrir fyrirtækið. „Sýning er mikilvægur vettvangur fyrir okkur til að hitta núverandi og nýja viðskiptavini og kynna okkar styrkleika og nýjar spennandi lausnir. Þá er gaman og gagnlegt að ná góðu spjalli við sýningargesti og fá enn betri innsýn inn í þeirra þarfir,“ segir Sverrir.
„Þátttakan í sýningunni var mjög góð og virkilega góð mæting hjá þeim sem í bransanum. Einnig gaman að sjá hversu margir af landsbyggðinni gerðu sér ferð í bæinn til að sjá hvað er nýtt að gerast í þessum heimi.“
Listin á sýningu sem þessari er líka að bjóða upp á ljúffengar veigar og kræsingar. „Við buðum upp á veitingar, tónlist og góða stemningu á sýningarbás BVT. Gleðin var í fyrirrúmi og gaman að sjá hversu margir gáfu sér tíma til að staldrað við skoða og spjalla. Eins og ég nefndi áðan þá var kokkur frá Rational sem töfraði fram ljúffengar veitingar handa gestum og gerði það framúrskarandi vel. Matur er ávallt manns gaman.“
Fyrst var áherslan að sameina og samþætta reksturinn
Nú ert þú nýr eigandi af fyrirtækjunum og búinn að taka við rekstrinum. Eru einhverjar breytingar sem þið hafið farið í eftir að þú tókst við og fyrirtækin voru sameinuð?
„Kaupin gengu í gegn í mars á þessu ári og áherslan var fyrst sett á að sameina og samþætta reksturinn. Við höfum komið sameinuðu fyrirtæki fyrir á nýjum stað að Draghálsi 22 í Reykjavík, opnað þar nýjan sýningarsal og verslun. BVT er í dag með stærstu verslun landsins fyrir fagmenn í veitingageiranum auk þess sem við leggjum áherslu á þjónustu við bakarí, vöruhús og smærri og stærri verslanir. Áherslur okkar eru að halda áfram að þjónusta þessa geira með áherslu á faglega og trausta þjónustu, hlusta eftir og mæta þörfum okkar viðskiptavina fyrir öflugar lausnir og vera framsækin með nýjungar,“ segir Sverrir með bros á vör.
Franskir vínkælar frá Le Sommalier
Segðu okkur aðeins frá aðaláherslum ykkar í vetur?
„Þessa dagana vinnum við í því að þétta vöruframboðið og bjóða alla okkar fjölbreyttu flóru viðskiptavina velkomna. Við störfum fyrst og fremst á fyrirtækjamarkaði við að þjónusta fyrirtæki en höfum samhliða því aðeins aukið vöruframboð okkar til einstaklinga til dæmis núna fyrir jólin má finna frábærar jólagjafir fyrir áhugamenn í eldhúsinu. Við kynnum fjölda nýrra vörumerkja eins og fjölbreytt úrval japanska hnífa, skurðarbretti frá Euroceppi á Ítalíu og glös frá Zwiesel og hjá okkur má einnig finna allt fyrir jólabaksturinn. Síðan hefur það færst mjög í vöxt að einstaklingar kaupi vínkæla og þar erum við með gríðarlega gott og öflugt úrval franskra vínkæla frá Le Sommalier sem hafa notið mikilla vinsælda hér á landi. Við eigum í raun allt fyrir fagmenn sem og ástríðukokka.“
Sverrir segir að þróunin sé líka ör í þessum bransa. „Það er síðan alltaf eitthvað nýtt að gerast. Til dæmis er mikil þróun í frysti- og kælibúnaði fyrir umhverfisvænan kælimiðil (CO2), þessi tækni er að nýtast bæði í verslanageiranum sem og veitinga- og hótelgeiranum. Nýjungar í meðferð á lífrænum úrgangi er líka spennandi lausn sem við erum að kynna hér á sýningunni í fyrsta skipti. Eins er sífellt meiri þróun í WiFi tengingum á allskyns rafmagnstækjum, það er meira að segja hægt að fá vínkæli með WiFi tenginu og símaappi sem aftur tengist til að mynda Vivino, þannig getur eigandinn fylgst með hvaða vín hann á, hvort og hvenær þau eru best til drykkjar.“
Hvernig er að vera með rekstur á fyrirtæki á þessu sviði?
„Fyrir mig er þetta eins og að vera krakki í dótabúð. Sjálfur hef ég keypt meira og minna allt í mitt eldhús í svona „Pro shops“ víða um heiminn gegnum tíðina. Það besta við BVT er hversu fjölbreyttur hópur viðskiptavina nýtir okkar þjónustu. Það gerir okkur kleift að skapa ákveðin stöðugleika í rekstrinum þar sem árstíðabundnar þarfir eru ólíkar og því hægt að passa upp á áherslurnar á hverjum tíma. Eðlilega þurfa eigendur veitingastaða og hótela að laga sig að sveiflum í umhverfinu en þannig er þetta í öllum rekstri, frábær ár, góð ár og síðan ár áskoranna,“ segir Sverrir.
„Sýningin hefur gefið mér, nýjum í þessum geira, mikilvæga innsýn og þá hefur verið einstaklega gaman að spjalla við gesti sýningarinnar og þessir tveir dagar voru gríðarlega lærdómsríkir og skemmtilegir. Ég er strax farinn að hlakka til næstu sýningar,“ segir Sverrir að lokum.