mán. 11. nóv. 2024 13:30
Bríet segir að árið 2024 hafi verið skrítið og fullt af drastískum breytingum.
Bríet: „Þetta er búið að vera ógeðslega skrítið ár“

Tónlistarkonan Bríet kom fyrst í sviðsljósið „off venue“ á Iceland Airwaves fyrir tíu árum. Hún tók hins vegar ekki þátt í Airwaves um helgina. Hún segir að árið 2024 hafi verið afar skrýtið og fullt af breytingum, en hefur nýtt árið til að tengjast aftur barninu í sjálfri sér. Síðasta föstudag gaf hún út nýtt lag þar sem hún þakkar fyrir sig, og lagið heitir „Takk fyrir allt.“

Bríet rifjaði upp fyrstu skrefin í tónlistinni, á Airwaves fyrir tíu árum, í viðtali við Ísland vaknar í morgun. „Þá var ég 15 ára, að spila eitthvað á falskan gítar og reyna mitt besta. En þetta var geggjuð reynsla. Þar kynntist ég strák sem var að gera tónlist, fór í stúdíó með honum, og þá byrjaði ég í stúdíóinu,“ lýsti Bríet, sem sagði að þar hefði eitthvað innra með henni kviknað.

 

Púsluspil að semja lög

Hún viðurkenndi að hún væri sjaldan alveg ánægð með það sem hún gerði, þar sem hún væri með mikla fullkomnunaráráttu.

„Ég veit ekki hvort það muni einhvern tíma gerast hjá mér,“ sagði Bríet og skellti upp úr. „Maður veit bara aldrei, þetta snerti við manni á einhverjum tímapunkti. En svo er maður að vinna svo lengi í sama laginu að maður dofnar fyrir því. Maður man ekki lengur hvernig fyrsta tilfinningin var. Stundum er þetta eins og púsluspil – manni vantar vers hérna, stóran kafla þar. Maður getur ekki tekið gagnrýni annarra sem heilögum sannleika, því allir hafa sína skoðun á þessu. Maður má ekki detta í þá gryfju.“

Hér má hlusta á viðtalið í heild sinni í Ísland vaknar með þeim Bolla Má og Þóri Bæring.

 

Bjóst ekki við að „Rólegur kúreki“ myndi slá í gegn

Hún sagði að maður þyrfti að passa sig á að vera ekki alltaf að leita eftir viðbrögðum frá öðrum. „Ef mér finnst þetta gott lag þá er þetta gott lag fyrir mig.“

Aðspurð sagðist hún algjörlega kannast við að hafa stundum verið óviss með lög sem síðar urðu „hittarar“ og öfugt, að binda miklar vonir við lög sem nutu síðan ekki vinsælda.

„Hundrað prósent. Ég meina „Kúrekinn“ var bara eitthvað lag,“ sagði Bríet og hló þegar Bolli lýsti því hvernig hann hafði öskursungið lagið með nokkrum fullorðnum körlum um helgina.

 

Drastískar breytingar 

Þegar talið barst að árinu sem er að líða opnaði Bríet sig og talaði af einlægni. 

„Þetta er búið að vera ógeðslega skrítið ár. Mjög mikið af breytingum. Mjög svona drastískum breytingum. Maður er búinn að þurfa að fullorðnast svolítið hratt. Svo er það líka það að mér finnst ég vera búin að vera fullorðin svo lengi að núna er ég að reyna að sækja barnið í mér,“ sagði Bríet og bætti við að þetta hefði verið hennar áhersla á árinu sem væri að líða.

„Að leita að barninu í sér,“ sagði hún.

„Ég er bara þreytt. En bara að reyna að vera í stúdíóinu og reyna aðeins að finna rétta veginn,“ sagði Bríet sem sagðist hafa verið að gera upp árið í laginu „Takk fyrir allt.“

Hér má heyra lagið. 

„Þetta gerðist rosalega hratt, þetta lag. Þetta varð til á tveimur dögum og ég vildi koma þessu út, ekki sitja á þessu. Algjört svona – að taka þjóðina inn og þakka fyrir sig. Það er ómetanlegt að fólk nenni manni yfir höfuð. Og svo svona alls konar tengsl sem maður var að kveðja og þakka fyrir líka. Og fjölskyldan og maður er bara svona að þakka yfir sig. Maður verður að gera það líka.“

 

Söngkonan ræddi einnig um væntanlega hátíðartónleika sína í Hörpu, 8. desember og sagði að áhorfendur muni eiga von á fullt af leynigestum. 

Hún staðfesti einnig að hún væri að færa sig meira yfir á enska tungu, til að fleiri geti skilið. 

„En svo þori ég ekki að segja neitt því að svo kemur bara þetta lag og maður er bara: Andskotinn, ég er búin að vera að ljúga hérna,“ sagði hún.

Viðtalið er í heild sinni í spilara ofar í fréttinni. 

til baka